Ragnar Önundarson skrifar:
Þegar við lítum til baka er það tvennt sem stendur upp úr, finnst mér, varðandi lífeyrisréttindi fólks:
* Að töp lífeyrissjóðanna vegna hrunsins reyndust mjög misjöfn. Í ljósi skylduaðildar manna að tilteknum sjóðum er það viðkvæmt mál. Annars vegar er fólk skyldað með lögum að leggja í lífeyrissjóð og svo var fólk skikkað í vissa sjóði með kjarasamningum, eftir stétt manna.
* Að sjóðirnir hafa ekki úthlutað fenginni ávöxtun eftir hrun yfir í réttindi og lífeyrir því ekki rétt úr kútnum eftir niðurfærslu. Ástæðan mun vera lengri lífaldur manna en tryggingafræðingar reiknuðu með. Þetta þarf að skoða vel núna, þegar fyrirséð er að kaupmáttur fólks rýrnar í efnahagslægðinni.
Lífeyrir margra er sem sé rýr, vegna mistaka og ákvarðana sem sjóðfélagar gátu hvorki forðast né haft áhrif á.
Það er beinlínis órökrétt að dregið sé úr lífeyri aldraðra vegna þess að reiknað er með að fólk sem enn er á vinnumarkaði muni lifa lengur. Það á að hækka iðgjöld vegna þeirra í sjóðina.