Hríseyjarhátíðin 2014 verður haldin um komandi helgi, 11. til 12. júlí, en hún hentar jafnt ungum sem öldnum. Á föstudeginum verður boðið upp á óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna en aðaldagskráin fer fram á laugardeginum og stendur frá hádegi og fram á kvöld. Af dagskrárliðum má nefna fjöruferð með Skralla trúð, dráttavélaferðir, leiktæki, tónlist, smakk á afurðum Hríseyjar, ratleik og fleira. Að venju endar hátíðin á kvöldvöku á sviðinu með varðeldi og brekkusöng. Hríseyjarhátíðin var fyrst haldin árið 1997 og hefur verið árlegur viðburður síðan. Í Hrísey er öll almenn þjónusta til staðar s.s verslun, veitingahús, sundlaug, tjaldsvæði og gisting. Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar og er boðið upp á allt að níu ferðir á dag. Siglingin tekur aðeins 15 mínútur frá Árskógssandi sem er um 35 kílómetra frá Akureyri. Nánari upplýsingar um Hrísey, ferjuáætlun og þjónustu má nálgast á hrisey.is.