Sigrún Jónsdóttir söngkona skrifar athyglisverða grein í Moggann í dag. Þar lýsir hún vel ömurlegri stöðu í heilbrigðiskerfinu. Miðjan birtir hér tvo kafla úr grein Sigrúnar.
Nefnd sem velur úr þá sem fá inni á hjúkrunarheimilum reiknar út hvernig sá einstaklingur, sem um vistunina sækir, skorar á færni- og heilsumatinu. Það er því að mínum skilningi reikningsdæmi sem sker úr um hversu hjálparþurfi hún er. Það hefur verið vitað mál síðasta áratuginn hið minnsta að það hefur fjölgað mikið í hópi aldraðra. Við lifum lengur, sem þakka má læknavísindunum, og á meðan fækkar í hópi þeirra yngri því barneignum hefur fækkað. Hvers vegna hefur stjórnvöldum láðst að bregðast við þessum breytingum í tíma? Að undirbúa það sem koma skal með forsjálni þannig að næg pláss séu fyrir hendi þegar á þarf að halda. Mönnuð starfsfólki sem væri launað á mannsæmandi hátt svo eftirsókn væri eftir þeim störfum sem til falla á stofnunum fyrir aldraða. En hvað verður nú um mömmu? Verður hún útskrifuð og send heim þar sem ástandið verður alltof erfitt fyrir hana og ekki síður pabba sem reynir að gera sitt besta þar til hann getur ekki meira? Hans lífsgæði verða verulega skert og hann gæti þurft á þjónustu að halda eins og mamma, ekki er það ódýr lausn. Verður mamma sett í biðvistun á einhverri þeirra þriggja stofnana sem eru í boði, á Vífilsstöðum, Akranesi eða Borgarnesi? Fær hún inni á hjúkrunarheimili í sinni heimabyggð og á möguleika á ævikvöldi með þokkalegri reisn? Ég held að svarið verði nei. Sú lausn er ekki í boði, því mamma er ekki nægilega ósjálfbjarga, hún hefur pabba sem er að verða níræður og hann reddar þessu.
Sigrún bætir við:
Fólkið sem byggði upp landið okkar Ísland, fólkið sem fæddist upp úr aldamótunum 1900 og fram eftir öldinni og þau sem fæddust fyrir seinna stríð. Þau sem enn lifa af kynslóðinni sem fæddist upp úr 1930, og eiga við heilsubrest að stríða, þeim er ekki gert hátt undir höfði þegar kemur að því að þau þurfa að komast á hjúkrunarheimili. Nei aldeilis ekki! Mamma vill komast á hjúkrunarheimili því hún treystir sér ekki til að vera heima lengur. Hún getur ekki séð um sig sjálf og er komin með heilabilun. Til að komast inn á áðurnefnt heimili þarf að vera helst alveg ósjálfbjarga líkamlega og andlega, þ.e. heilabilaður eða annað hvort. Ég var að springa úr reiði og sorg þegar fjölskyldufundinum með foreldrum mínum og öldrunarteymi því sem sér um mál mömmu lauk. Allar upplýsingar um stöðu mála voru greinargóðar og faglegar en alveg skýrt að hún ætti nánast enga von um að komast inn á hjúkrunarheimili á næstunni. Það væri hægt að sækja um færni- og heilsumat en hún fengi örugglega neitun um vist á þar til gerðri stofnun. Ástæðan meðal annars: Jú, pabbi, sem er að verða níræður, hann keyrir enn þá, sækir björg í bú og hefur séð um mömmu síðustu tvö árin, af veikum mætti en eljusemi. Hann er sjálfur orðinn slitinn, máttfarinn, dettinn, farinn að gleyma og ekki í stakk búinn líkamlega til að sinna svo mikilli umönnun og hvað þá að vera rígbundinn, því hún mamma getur ekki verið ein. Hún fær böðun einu sinni í viku, sendan mat heim daglega, sjúkraþjálfun heim vikulega og þrif tvisvar í mánuði að ógleymdum öryggishnappinum. Pabbi er sem sé of sjálfbjarga og á bara að redda þessu! Þar sem mamma kemst ekki lengur hjálparlaust á salernið og þarf þangað tvisvar til þrisvar á nóttu, þá má leysa það vandamál með því að skella á hana bleyju yfir nóttina. Það er ekki ofsögum sagt að tvisvar verður gamall maður barn.