- Advertisement -

„Leysa út lyfin sín á raðgreiðslum?“

Bjarni: „Við höfum verið með algerlega einstaka þróun á framlögum úr almannatryggingum á undanförnum árum.“

„Eru allir aldraðir svo vel staddir að þeir þurfi ekki á neinni hjálp að halda? Er eðlilegt og sjálfsagt að ákveðinn hópur eldri borgara þurfi jafnvel að leysa út lyfin sín á raðgreiðslum?“

Þannig talaði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi í gær í umræðu um fjáraukalög. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var honum fráleitt sammála.

„Við höfum verið með algerlega einstaka þróun á framlögum úr almannatryggingum á undanförnum árum sem hafa því sem næst tvöfaldast að raunvirði í útgreiðslu á fáum árum,“ sagði ráðherrann og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„En við gerum betur en flestir.“

Þó er einn hængur á, að mati Bjarna: „Það breytir því ekki að við erum því miður í þeirri stöðu að geta ekki skapað nægjanleg verðmæti hér á Íslandi til þess að tryggja öllum Íslendingum sem hafa ekki getað nýtt starfsævina til að byggja upp lífeyrisréttindi sín þann stuðning að þeir eigi auðvelt með að komast af,“ sagði Bjarni og ekki er unnt að skilja hann á annan hátt en þann að lífeyrisþegar, margir hverjir, verði að sættast á að sitja eftir.

Guðmundur Ingi undrar sig á stöðunni: „Hérna erum við að dæla út peningum og hjálpa til og aðstoða við að segja upp fólki í vinnu og annað. Það virðast vera til nægir peningar til að dæla út en það virðist ekki vera til peningar til að hjálpa öldruðum sem eru illa staddir.“

Bjarni er samt sem áður hreykinn af eigin verkum: „En við gerum betur en flestir og við gerum betur í dag en nokkru sinni fyrr. Við höfum þess vegna verið á réttri braut og með því að halda áfram að skapa verðmæti, með því að loka að nýju fjárlagagatinu sem er verulegt á þessu ári, mun okkur vonandi auðnast í framtíðinni að halda áfram að gera vel í þessum efnum.“

Hér má sjá frétt Miðjunnar, frá 12. maí, um lyfjakaup á raðgreiðslum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: