Yfir 80% fanga eru með raskanir.
„Vegna þess að nám fangavarða er ekki á háskólastigi þá eru ekki til neinar rannsóknir sem við vitum um en það er rétt að mjög stór hluti fanga, sennilega yfir 80% eru með einhverskonar raskanir eins og adhd á háu stigi, lesblindu eða hreinlega ólæsi,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, í samtali við Miðjuna.
„Þetta þekkjum við vel hjá Afstöðu sem er hin raunverulega „grasrót“ í þessum málaflokki, því daglega þurfum við að lesa fyrir fanga og útskýra fyrir þeim hvað þýða þau bréf og úrskurðir sem þeir fá hjá stjórnvöldum. Á sama tíma þurfum við auðvitað að svara eða kæra til baka,“ segir Guðmundur Ingi.
„Fangar eru líka sá hópur sem gefast strax upp við fyrstu neitun vegna þess að svo margir hafa ekki skilning eða getu til þess að kæra neitanir eða aðra úrskurði. Í málaferlum geta þeir stuðst við lögmenn en eftir að dómur er ákveðinn eru þeir einir á báti og þar vandast málin einmitt út af slíkum röskunum.“