- Advertisement -

„LÉNSVELDI KVÓTALAGANNA“

Úr leiðara Moggans:

ANDSTAÐA mikils meirihluta þjóðarinnar við það fiskveiðistjórnunarkerfi, sem nú er við lýði blasir við hverjum, sem vill sjá og heyra. Um það þarf ekki að deila. Viðhorfum þessa mikla meirihluta var lýst með óvenjulega skýrum og skiljanlegum hætti í grein, sem birtist hér í Morgunblaðinu sl. þriðjudag, en höfundur hennar er Kristján Þ. Davíðsson, sjávarútvegsfræðingur. Höfundur segir m.a.:

„Það sem vekur andúð á kvótakerfinu og býr til uppnefni eins og kvótaaðall, sægreifar og kvótakóngar er sú staðreynd að þorra fólks þykir misrétti felast í kvótakerfinu. Kvótalögin misbjóða réttlætiskennd almennings og þetta er hvati þeirrar miklu gagnrýni á kvótakerfið, sem fram hefur komið.“ Og síðar í grein sinni segir Kristján Þ. Davíðsson: „Kvótalögin bjuggu til stétt manna, sem er uppnefnd kvótaaðall og allir aðrir, sem vilja veiða fisk skulu samkvæmt lögunum borga veiðileigu til „aðalsins“. Afskriftir eru í fyrirtækjarekstri til þess hafðar að hægt sé að telja til útgjalda slit og úreldingu tækja, húsa, skipa og annars sem tilheyrir tekjusköpuninni. En það að hægt sé að afskrifa keyptan kvóta, sem er endurnýjaður ókeypis á hverju ári um ófyrirséða framtíð, er að margra mati lýsandi dæmi um siðleysi löggjafans og þess „aðals’V sem stendur að slíkri lagasetningu. Afskriftaheimild á kvóta er illa dulbúin niðurgreiðsla til kvótaeigenda, ávísun á peninga úr vösum skattgreiðenda til kvótaeigenda, enda lögleg kvótaviðskipti oft uppnefnd „kvótabrask“. Afskriftirnar lækka skattbærar tekjur kvótaeigandans og til að bæta sér upp tekjutapið hækkar ríkið skatta annarra skattgreiðenda, launþega og fyrirtækja.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og loks segir greinarhöfundur: „Þetta kerfi er alls ekki nýtt, það var víða reynt á miðöldum og af sögunni dæmt ónothæft. Það er kallað lénsveldi og þeir fáu, sem nutu þess voru kóngar, greifar og aðrir aðalsmenn, samanber uppnefnin kvótakóngur, sægreifi og kvótaaðall. Á miðöldum safnaðist þjóðarauður með siðlausum lagasetningum spillts ríkisvalds og siðlausum gerðum spillts aðals á fárra manna hendur uns upp úr sauð.“

Það er ástæða til að vekja athygli á þeim sjónarmiðum, sem hér er lýst. Þau eru áreiðanlega til marks um viðhorf, sem eru mjög útbreidd meðal almennra borgara. Það er afar mikilvægt að ekki dragist öllu lengur að stíga fyrstu skrefin til sátta í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar allrar. Sú sáttargjörð verður að byggjast á sanngirni gagnvart útgerðinni, en hún verður að grundvallast á hagsmunum þeirra, sem auðlindina eiga.

Þetta er úr leiðara Moggans 4. júlí 1997.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: