„Við þurfum að reyna að finna framtíðarlausnir. Áhyggjur okkar beinast helst að því að meðan staðan er erfið náum við ekki að fjárfesta neitt,“ segir framkvæmdastjóri Strætó, Jóhannes Rúnarsson í Mogga dagsins.
Þar vísar hann til aldurs og ástands vagnaflota Strætó. Lítið hefur verið fjárfest í nýjum vögnum síðustu ár vegna bágrar fjárhagsstöðu en þó er von á níu litlum vögnum í sumar sem laga munu stöðuna aðeins. Tekjuáætlun Strætó byggist á því að hægt sé að halda fullri þjónustu á þeim leiðum sem keyrðar eru. Það sé því ekki góðs viti að í desember og í janúar þurfti að fella niður um 50 ferðir vegna ástands flotans.
„Það getur komið upp sú staða að við höfum ekki tæki og tól til að keyra leiðir og þar af leiðandi getum við ekki aflað tekna,“ segir Jóhannes. „Við erum afskaplega ánægð með að nú er fullt af farþegum að koma aftur eftir Covid. Það eru jákvæð teikn á lofti þar og því er áhyggjuefni ef við getum ekki tekið á móti þessum fjölda.“
„Það gengur ekki að reka fyrirtækið dag frá degi. Þetta er fjárfrekur rekstur og það tekur langan tíma bæði að fá tæki og að skera niður í rekstri. Bara það að kaupa nýja vagna tekur um það bil eitt og hálft ár.“