Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, skrifar um lestrarkennslu í Moggann í dag. Hann skrifar meðal annars:
„Ef eitthvert mál kallar á rannsóknarnefnd Alþingis þá er það lestrarkunnátta og lestrarkennsluaðferðir á Íslandi.“ Í grein Eyjólfs segir: „Byrjendalæsi, kennsluaðferð sem þróuð var hjá Háskólanum á Akureyri og kennd er í um 100 grunnskólum á Íslandi, leiðir ekki til betri árangurs nemenda á samræmdum könnunarprófum. Þetta kom fram í samantekt Menntamálastofnunar 2015. Nemendur sem lærðu að lesa með aðferðinni voru verr staddir en þeir sem það gerðu ekki. Munur nemenda í fjórða bekk var einn heill í einkunn á samræmdum prófum. Þrátt fyrir þetta hefur verið haldið áfram að nota þessa heimatilbúnu kennsluaðferð við lestur, aðferð sem byggist ekki á fremstu vísindum.
Ekki er vitað um neina rannsókn, sem hefur birst í alþjóðlegu tímariti, um árangur Byrjendalæsis fyrir lestrarkunnáttu barna. Þrátt fyrir það hefur Háskólinn á Akureyri selt Byrjendalæsi í 86-100 (af 175) grunnskóla landsins. Ótrúlegt er að meira en helmingur skóla landsins hafi keypt þessa aðferð án viðurkenndra rannsókna eða árangursmælinga. Hvar eru menntamálaráðherra og Háskóli Íslands?
Hvorki menntamálaráðherra né Háskóli Íslands hafa gert nokkuð til að taka á þessu vandamáli. Fræðimenn Háskóla Íslands á sviði lestrar hafa ekkert fært fram og þögnin þar um leshraðamælingar og hið heimatilbúna Byrjendalæsi er æpandi.
Líklega hefur tjónið af íslenska klíkusamfélaginu, fúskinu og prinsippleysinu aldrei verið meira en þegar kemur að lélegri lestrarkunnáttu í landinu. Sorglegt er fyrir þingmann að heyra í kjördæmi sínu um lélegt læsi nemenda og frásagnir foreldra um lestrarerfiðleika uppkominna barna sinna, sem aldrei var kennt að lesa með réttum hætti og upplifðu kvíða og vanmátt vegna hraðlestrarprófa. Enn sorglegra er að ráðherra málaflokksins og æðsta menntastofnun þjóðarinnar hafa ekkert gert í málinu og virðast ekki einu sinni hafa skoðun á því.
Ef eitthvert mál kallar á rannsóknarnefnd Alþingis þá er það lestrarkunnátta og lestrarkennsluaðferðir á Íslandi og máttleysi íslenskra stjórnvalda og þögn æðstu menntastofnunar landsins í málinu.“