Lekur Landspítali í ólgusjó
Tómas Guðbartsson:
„Hetjuviðtöl af niðurskurði erlendis eru því illa tímasett og bara til þess að auka á gremju – bæði innanhúss sem utan.“
Það er greinilegt að margir blaðamenn sætta sig ekki við staðreyndir þegar kemur að fjórðu bylgju Covid og stöðunni hérlendis. Erfið fjórða bylgja faraldursins er töluð niður á sama tíma og básúnuð er gagnrýni á Landspítalann og sóttvarnarlækni. Gagnrýni sem oft er óverðskulduð. Spítalinn er á hættustigi. Það er verið að ausa skútuna í þessum töluðu orðum. Í dag lögðust tveir sjúklingar til viðbótar með Covid á gjörgæslu. Þeir eru því 6 talsins – sem er gríðarlega mikið í ekki fjölmennara landi en okkar – hvort sem gjörgæslurými eru 10, 15 eða 20 talsins. Vandinn væri enn stærri ef ekki hefðu verið sendir gjörgæslusjúklingar í öndunarvél með sjúkraflugi erlendis – og norður á Akureyri.
Loks hefur verið skrúfað niður í stærri skurðaðgerðum – eitthvað sem allir sjá að gengur ekki til lengdar. Starfsfólk er kallað inn úr sumarfríi, aðrir mæta sjálfviljugir af einkastofum og allir bæta á sig endalausum aukavöktum. Við þessar aðstæður er FÁRÁNLEGT að berja sífellt í bumbur rekstrarvanda og vísa til óstjórnar á spítalanum. Enda órökstuddar fullyrðingar sem lykta af kosningapopulisma.
Á leku skipi er ekki fækkað í áhöfn. Í staðinn hjálpast allir að – bæði skipverjar og farþegar – og ausa botninn svo skipið haldist á floti. Hetjuviðtöl af niðurskurði erlendis eru því illa tímasett og bara til þess að auka á gremju – bæði innanhúss sem utan. Nú þurfa allir að halda fókus – líka þeir sem halda um penna á stóru fjölmiðlum landsins. Enda árangursríkara í ólgusjó að róa í sömu átt.