Laugardagsgrein Styrmis Gunnarsson er góð að vanda. Hann hefur lesið bók Þórðar Snæs Júlíussonar um Kaupþing og gerir henni skil og hversu nærri Ísland var að spila frá sér sjálfstæðinu.
„Niðurstaða greinarhöfundar af lestri þessarar bókar er sú, að þeir viðskiptahættir, sem þróuðust hér á fyrstu árum nýrrar aldar, án þess að gripið væri í taumana af hálfu opinberra aðila, hafi í raun stofnað sjálfstæði þjóðar okkar í hættu,“ skrifar Styrmir.
Síðar í greininni stendur:
„Hverjir voru helztu fórnarlömb þessa ævintýris?
Smátt og smátt er að koma betur og betur í ljós, að það voru almennir borgarar, sem höfðu það eitt til saka unnið að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið við misjafnlega erfiðar aðstæður.
Og það er líka að koma betur og betur í ljós að afleiðingarnar fyrir þetta fólk voru ekki bara eignamissir og fjárhagsvandmál heldur líka í of mörgum tilvikum heilsubrestur.
Það er kominn tími á að beina athyglinni að málefnum þessa fólks eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert ítrekaðar kröfur um en ekki verið hlustað á.
Smáþjóðir geta misst sjálfstæði sitt vegna atburða á borð við hrunið. Við sjáum hvernig farið hefur verið með Grikki. Þeir hafa sætt svívirðilegri meðferð af hálfu þeirra, sem ráða ferðinni í Evrópu, sem sumir telja nánast glæpsamlega.
Það er hægt að skilja að ríkisstjórnir og Alþingi hafi verið upptekin við endurreisn efnahagslífs þjóðarinnar og ekki getað sinnt öllu í einu. En nú eru breyttir og betri tímar að sögn landsfeðranna og þá er komið að því verkefni að ógnir að innan stofni ekki sjálfstæði þessarar þjóðar í hættu á ný.“
Fyrirsögnin er Miðjunnar.