Stjórnmál
„Það er eitt af því sem við erum að skoða,“ segir Óli Björn, en bendir á að hafa verði í huga svokölluð armslengdarsjónarmið sem í gildi eru. Bankasýslan skipi stjórn bankans. Þingið geti ekki með beinum hætti haft áhrif á ákvarðanir stjórna sem eigi að vera sjálfstæðar enda ekki æskilegt, sagði Óli Björn Kárason alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.
Þannig svaraði hann þessari spurningu: Getur Alþingi brugðist við, t.d. með lagasetningu um bann við viðskiptunum?
Óli Björn segir einnig:
„Kaupin ganga gegn skýrri stefnu ríkisstjórnar um að draga úr þátttöku ríkisins á fjármálamarkaði. Það er umhugsunarvert fyrir alla, bæði þá sem eru á fjármálamarkaði og þá sem sitja á Alþingi, hvernig stjórnir einstakra ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefndir og embættismenn eru í raun búin að taka sér svo mikil völd að kjörnir fulltrúar eiga litla sem enga möguleika á að framfylgja pólitískri stefnu, eins og í þessu tifelli,“ sagði Óli Björn Kárason alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.
Óli Björn segir það einnig áhyggjuefni að stjórn ríkisfyrirtækis, þ.e. Landsbankans, hafi að engu stefnumörkun stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem og yfirlýsingu fjármálaráðherra um að honum hugnaðist ekki að Landsbankinn keypti TM.
„En það er umhugsunarvert þegar stjórn gengur í berhögg við yfirlýsta pólitíska stefnumörkun, bæði sitjandi ríkisstjórnar og ráðherrans sem fer með hlutabréfið í bankanum. Það gengur ekki. Það kann að vera að eina ráðið sem við höfum sé að setja sérstök lög sem leggja bann við kaupunum, en það orkar þó tvímælis. Þetta er hluti af miklu stærra vandamáli. Búið er að framselja of mikið vald frá kjörnum fulltrúum til embættismanna, stjórna ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefnda o.s.frv. Þetta krefst allt endurskoðunar,“ segir Óli Björn í fréttaviðtali Moggans.