Gunnar Smári skrifar:
Leikrit um þykjustunni stjórnsýslu. Fjármálaráðherra þykist vera að bíða eftir tillögu um sölu á ríkisbönkum frá bankasýslu sem hann sjálfur skipaði vildarvinum sínum og skoðanasystkinum. Svona er glórulaus nýfrjálshyggja og grimmd víða um kerfið látin líta út eins og fagleg, óhlutdræg niðurstaða almennrar skoðunar. Annars kemur þarna fram að mínus áhugi er á kaupum á íslenskum bönkunum. Og það á reyndar við um banka almennt. Það hefur afhjúpast eftir Hrun að bankar, eins og bankastarfsemi hefur verið rekin síðustu áratugi, er skipulögð glæpastarfsemi; bankamenn eru víða komnir á sakamannabekk og ljóst er orðið að stjórnvöld verða að fjarlægja þetta krabbamein úr samfélaginu. Sú aðgerð er kannski ekki langt komin, en það eru alla vega engar biðraðir lengur af fólki sem vill kaupa sig inn í hana.
Ef íslensk stjórnvöld hefðu áhuga á stjórnmálum; þeirri tegund sem snýr að uppbyggingu góðs samfélags, ekki aðeins hagsmunagæslu fyrir hin ríku; væru þau byrjuð á að skera bankakerfið niður og aðlaga það að þjónustu við almenning. Bankakerfi sem stórgróðamaskína fyrir hin auðugu er álíka góð hugmynd og að taka upp Satanisma sem ríkistrú, stunda mannfórnir á torgum eða taka aftur upp þrælahald.