- Advertisement -

Leika þjóðlagatónlist að Gljúfrasteini

Menning Tvíeykið Funi, söng- og kvæðakonan Bára Grímsdóttir og Chris Foster söngvaskáld koma fram á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins, sunnudaginn 27. júlí. Þau ætla að flytja íslensk og ensk þjóðlög í eigin útsetningum, sungin og leikin á langspil, gítar, kantele og íslenska fiðlu. Má þar nefna kvæðalög, veraldleg og trúarleg lög sem fundist hafa í ýmsum gömlum heimildum, einnig enskar ballöður við langspils og gítarundirleik. Textarnir eru bæði nýir og gamlir, allt frá þjóðkvæðum og sálmum frá 17. öld til kvæða eftir föður Báru. Funi hefur starfað síðan 2002 og komið fram víða hér á landi, Norðurlöndunum, Evrópu, Bandaríkjunum og Kína. Funi hefur gefið út geisladiskana Funi og Flúr og fengið mikið lof fyrir hér heima og erlendis.
Bára Grímsdóttir ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði allt frá barnæsku kveðskap foreldra sinna, afa og ömmu á bænum Grímstungu í Vatnsdal. Bára er af mörgum talin vera einn allra besti túlkandi þjóðlegrar tónlistar hér á landi, en hún hefur sérstakan áhuga á rímnastemmum og kvæðalögum. Hún hefur fengist við flutning á margs konar þjóðlagatónlist bæði hér heima og erlendis. Sem tónskáld og útsetjari, hefur Bára nýtt sér uppsprettulindir íslenskra þjóðlaga til skapandi starfs en hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar sem tónskáld.

Chris Foster kynntist þjóðlögum í uppvexti sínum í Somerset í Suðvestur-Englandi. Flutningur hans einkennist af mikilli og persónulegri innlifun í tónlistina, sem oft leiðir til þess að áheyrendur verða beinir þátttakendur í því sem fram fer og flutt er. Chris hefur sett þjóðlagahefðina í nútímalegan búning með sérstæðum, frumlegum gítarundirleik og sannfærandi söngtúlkun. Hann er talinn einn besti listamaður síðari tíma á sínu sviði og í frestu röð merkra brautryðjenda í endurvakningu á breskri þjóðlagatónlist.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: