- Advertisement -

LEIGJENDUR HJÁ FÉLAGSBÚSTÖÐUM STOFNA FÉLAG

Leigjendur hjá Félagsbústöðum stofnuðu með sér hagsmunafélag, Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum, á vel sóttum fundi í Dósaverksmiðjunni í Borgartúni. Félagið verður aðili að Samtökum leigjenda á Íslandi.

„Það kom vel fram á fundinum að það er þörf fyrir svona félag,“ segir Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir, sem kjörin var formaður félagsins. „Það er megn óánægja með Félagsbústaði sem leigusala og einnig samskipti fólks við velferðarsvið borgarinnar. Það kom í ljós á fundinum að fólk er að reka sig á sömu vandamálin, upplifir sama skort á upplýsingum og það var sameiginleg upplifun flestra á fundinum að bæði Félagsbústaðir og velferðarsvið koma fram við leigjendur hjá félagsbústöðum og fólk á biðlistum sem annars flokks. Viðhorfin eru að fólk eigi bara að vera þakklátt fyrir að fá húsnæði og ekki vera með neina kröfur. En nú erum við risin upp, höfum sameinast og við ætlum að gera kröfur.“

Fundargestir deildu reynslu sinni af félagslega kerfinu. Mikið var rætt um fátækragildruna sem fólk festist í. Þegar fólk reyndi að afla sér tekna til að bæta stöðu sína væru bætur skertar strax á móti. „Enginn sem lent hefur í þessari stöðu skilur hvers vegna kerfið þarf að vera svona grimmt,“ segir Pálína Sjöfn. „Við deilum því sambærilegri reynslu og öryrkjar og eftirlaunafólk, að vera innan kerfis sem í nafninu á að styðja fólk en sem í reynd heldur fólki niðri.“

Margt fólk hefur þurft að láta frá sér gæludýr þegar það fær úthlutað íbúð hjá Félagsbústöðum, því hundar og kettir eru bannaðir í íbúðum félagsins en heimilt að hafa fiska eða hamstur í búri. „Hvers vegna megum við í okkar stigagangi ekki samþykkja hund eða kött?“ spurði kona á fundinum. „Það má fólk í öðrum húsum, hvers vegna ekki við?“ Á það var bent að margir leigjendur Félagsbústaða byggju við félagslega einangrun og því væri grimmt að neita þeim um félagsskap við ferfætlinga.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fólk kvartaði mikið yfir hversu litlar upplýsingar leigjendur fá um hvert þeir geti leitað með erindi sín. Það getur verið mjög snúið að komast að því hver réttur fólks er. Eitt af því sem fundargestir lögðu til að hið nýja félag sinnti var að safna saman slíkum upplýsingum.

„Með stofnun þessa félags hafa leigjendur hjá Félagsbústöðum eignast sameinaða rödd,“ segir Laufey Ólafsdóttir, sem er ritari stjórnar. Laufey tók nýlega sæti í stjórn Félagsbústaða, fyrst leigjenda þar, fyrir hönd sósíalista í borginni. „Þetta félag mun verða baklandið mitt,“ segir Laufey, „ég lít svo á að ég sé fulltrúi þess í stjórn Félagsbústaða.

Auk Laufeyjar og Pálínu sitja í stjórn félagsins Hildur Oddsdóttir varaformaður og Vigdís Erla Rafnsdóttir og Geirdís Hanna Kristjánsdóttir meðstjórnendur. Og Anna Sigríður Guðmundsdóttir og Sigrún Jónsdóttir til vara. Stjórnin hittist á sínum fyrsta fundi á þriðjudaginn og mun þá skipta með sér verkum. Á fundinum í kvöld var ákveðið að fela stjórninni að safna sögum leigjenda hjá Félagsbústöðum og birta opinberlega svo fólk fengi að vita um aðstæður hópsins, en ekki undir nafni þeirra sem ættu sögurnar.“

„Það hefur lengi verið reynt að klína skömm upp á leigjendur hjá Félagsbústöðum,“ segir Laufey, „og það eru ekki öll tilbúin að stíga fram undir nafni. En við erum risin upp, ætlum að standa saman og krefjast þess að komið sé fram við okkur af virðingu og að á okkur sé hlustað. Og við munum beita ýmsum aðferðum úr mannréttindabaráttunni til að ná þeim árangri. Meðal annars að birta frásagnir undir nafnleynd.“

„Þetta er aldeilis frábærar fréttir,“ segir Margrét Kristín Blöndal, nýkjörinn formaður Samtaka leigjenda á Íslandi. „Eina von leigjenda er að standa saman og samstaða leigjenda hjá Félagsbústöðum er eina leið þeirra til að bæta kjör sín og aðstæður.

Magga Stína, segir að í undirbúningi sé að stofna fleiri félög innan Samtaka leigjenda; félag leigjenda hjá Heimavöllum og hjá almenna leigufélaginu, félag leigjenda á Norðurlandi og líka á Austurlandi, félag innflytjenda á leigumarkaði og svo framvegis. „Leigjendur hafa ólíka hagsmuni og svo hafa þeir sameiginlega hagsmuni. Hugmyndin er að Samtök leigjenda berjist fyrir sameiginlegum hagsmunum leigjenda en svo starfi innan vébanda samtakanna félög sem berjist fyrir sérstökum baráttumálum einstakra hópa.

„Þetta var frábært kvöld,“ segir Pálína Sjöfn. „Það er ekkert jafn hressandi og smá byltingarandi fyrir svefninn. Maður sefur svo miklu betur.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: