„Hátt í helmingur svarenda sagðist búa í leiguhúsnæði og hafði fimmti hver þeirra áhyggjur af því að missa húsnæðið. Félagsmenn Eflingar af erlendum uppruna eru líklegri en aðrir til að búa í leiguhúsnæði. Þeir hafa einnig mun meiri áhyggjur af því að geta ekki staðið skil á húsnæðiskostnaði. Af heildarhópnum sögðu ríflega 55% að fjárhagsáhyggjur þeirra hefðu aukist nokkuð eða mikið,“ segir meðal annars í frétt á vefsíðu Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að á sama tíma og faraldurinn afhjúpi mikilvægi framlínustarfa leiki hann félagsmenn grátt. „Okkar félagsmenn eru í afar viðkvæmri stöðu. Lítið má út af bregða til að fjárhagslegu öryggi þeirra sé ógnað. Stjórnvöldum ber skylda til að skapa fólki ný störf, styðja við bakið á leigjendum, greiða framlínufólki álag og tryggja að fólk á lágmarkslaunum missi ekki tekjur vegna lokunar skóla. Annað er ekki réttlætanlegt.“
Hátt í helmingur félagsmanna Eflingar á almennum vinnumarkaði hafði orðið fyrir breytingu á starfi sínu vegna áhrifa frá Covid-19 undir lok apríl að því er fram kemur í niðurstöðum spurningakönnunar Maskínu fyrir stéttarfélagið. Hjá miklum meirihluta þeirra sem urðu fyrir breytingum, eða tæpum fjórðungi allra svarenda, hafði starfshlutfall verið skert og 5% allra svarenda hafði verið sagt upp störfum. Spurningalisti Eflingar var borinn undir 1.843 manna úrtak íslensku-, ensku- og pólskumælandi félagsmanna dagana 8. -24. apríl og svöruðu 875 eða 47,5%. Af niðurstöðunum er ljóst að Covid-19 hefur haft verulega íþyngjandi áhrif á stöðu félagsmanna Eflingar á almennum vinnumarkaði.
-sme