Alþingi
„Það segir sig sjálft að það er auðvitað frábært að við erum núna að fara vinna í húsnæðisstuðningnum í velferðarnefnd vegna þess að eftir því sem sagt er þá er leiguverð á 100 m² íbúð 400.00–500.000 á mánuði, sem er auðvitað gífurleg upphæð. Þess vegna skiptir ofboðslega miklu máli fyrir þessa einstaklinga, sem eru núna sem betur fer búnir fá frystingu á sínum lánum, að fá stuðning til að standa undir þessari stökkbreyttu leigu sem er hér á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi þegar þar var rætt um Grindavík og Grindvíkinga.
Tölurnar sem hann nefndi, allt að 500.000 fyrir hindrað fermetra íbúð, eru hærri en áður hafa heyrst. Getur verið að leiguverð rjúki upp núna eins og gerðist þegar gaus á Heimaey 1973.
„Ég vona auðvitað heitt og innilega, eins og við sýnum í velferðarnefnd og munum vonandi líka sýna bæði í þessu máli og húsnæðismálunum, að við getum unnið hratt og vel og að við getum gert þetta. Það væri óskandi að við tækjum fleiri mál og sýndum það að við erum tilbúin að ekki bara að byggja varnargarða í kringum Orkuveituna og í Svartsengi og fólkið í Grindavík heldur að við munum líka byggja varnargarð um viðkvæmasta fólkið. Þar hef ég mestar áhyggjur af fötluðu fólki og eldra fólki og líka erlendum aðilum. Þess vegna verður að tryggja að það sé einhver ákveðin miðstöð þar sem fólk getur komið. Núna eru þau búin að tala um að þetta mál sem hér er undir er undir Vinnumálastofnun. Síðan kemur húsnæðisstuðningur, það er undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og það er jú talað um að bæjarstjórn Grindavíkur muni vera með upplýsingaveitu í Tollhúsinu hérna rétt hjá. En síðan fer nú flest fram rafrænt, í gegnum netið. Það þarf einhverja síðu sem bendir fólki á hvert það á að leita.“