Stjórnmál

Leiga Félagsbústaða aftengd vísitölu

By Miðjan

December 06, 2022

Sósíalistar í borgarstjórn hafa lagt til að húsaleiga hjá leigjendum Félagsbústaða verði aftengd vísitölu og taki þannig ekki mánaðarlegum hækkunum. Þetta er gert í ljósi þess að leigjendur Félagsbústaða búa við erfiða fjárhagslega stöðu og eiga margir hverjir erfitt með að mæta hækkandi leigu þegar tekjur hækka ekki á móti. Í því samhengi er mikilvægt að taka fram að stærsti hluti leigjenda eru öryrkjar sem búa við erfiða fjárhagsstöðu. Tekjur þeirra taka ekki hækkunum í takt við þróun vísitölu og það gera sérstakar húsnæðisbætur ekki heldur. Það þarf því að afnema vísitölutengingu við þróun leiguverðs þar sem efnahagsstaða leigjenda gerir þeim ekki kleift að standa undir slíkum hækkunum. Þar sem tekjur leigjenda eru að jafnaði ekki vísitölutengdar, ætti húsnæðiskostnaðurinn ekki að vera það, í því er fólgið mikið óréttlæti. Kostnaðaráhrif tillögunnar fela í sér tekjutap upp á 196 m.kr. vegna 2023. Lagt er til að borgarsjóður bæti Félagsbústöðum tekjutapið.