Leiftursókn gegn lífskjörum og Mogginn
Útgerð Morgunblaðsins á lögheimili í Borgartúni 35 í Reykjavík. Í því húsi eru einnig til húsa aðrir helstu og frekustu lobbýistar landsins. Þar er unnið að næstu aðför að vinnandi fólki. Leiftursókn gegn lífskjörum. Mogginn er settur í það hlutverk að „þukla“ á samfélaginu. Kanna hversu hratt og hversu langt er hægt að ganga í fyrstu lotu. Það tókst að berja flugfreyjur á bak aftur. Unnið er að því að leggja sjómenn á Herjólfi. Þar miðar vel.
Í báðum tilfellum var beitt áður óþekktum aðferðum. Lög voru víst brotin í aðförinni að flugfreyjunum. Aðgerðin heppnaðist. Nú er verið að berja niður sjómennina. Og miðar vel.
Mogginn er sem fyrr brúkaður sem undanfari aðgerðanna. Nokkurskonar héri. Í dag leitar hann stuðnings í Hagsjá Landsbankans. Í leiðara segir:
„Í Hagsjánni segir að það sé nýtt í stöðunni, „að samtök atvinnurekenda gætu séð sér hag í að segja samningnum upp. Ljóst er að margar lykilforsendur sem upphaflegir samningar byggðust á hafa brugðist eftir að áföll vegna faraldursins tóku að dynja á hagkerfinu. Töluverð óánægja heyrðist úr herbúðum atvinnurekenda vegna áfangahækkana launa í apríl, sem einhverjir vildu fresta eða minnka. Næstu áfangahækkanir eru 1. janúar 2021 og má vænta þess að umræða komi upp hversu mikil innistæða verði fyrir þeim hækkunum“.“
Takmark leiftursóknarinnar er augljós. Unnið verður gegn lífskjörum. Aðstæður til þess er óvenju góðar. Lobbýistarnir í Borgartúni búa að því að núverandi ríkisstjórn er þeim hliðholl. Er með þeim í liði. Það munar um minna.
Staksteinar eru einnig brúkaðir í vegferðinni: „ASÍ náði völdum og áhrifum í samfélaginu á síðustu öld með samvinnu við hægrimiðjuna sem er ráðandi í íslensku samfélagi. Ef ASÍ segir sig frá þeirri samvinnu er úti um verkalýðshreyfinguna.“ Þetta verður ekki misskilið. Skilaboðin eru skýr.
Í leiðaranum er þetta að finna: „Þrátt fyrir það verður að halda í vonina um að aðilar vinnumarkaðarins setjist fljótlega niður og semji um endurskoðun samninga sem tryggi sem flestum störf og að kjarabætur síðustu ára verði varðar eftir því sem unnt er.“
Segir þá ekki meira að „hérahlutverki“ Moggans í dag. Það er alvara á ferðum. Leiftursóknin gegn lífskjörunum er hafin.
Sigurjón Magnús Egilsson.
Afritaðu og límdu þessa vefslóð í WordPress vefinn þinn til þess að fella inn
Afritaðu og límdu þennan kóða yfir í vefinn þinn til þess að fella inn