Leiðsögn með Aldísi Arnardóttur sýningarstjóra sýningarinnar Líðandin – la durée, verður á sunnudag 15. apríl kl. 14.00 á Kjarvalsstöðum
Á sýningunni eru mörg sjaldséð verk, einkum frá fyrri hluta starfsævi Jóhannesar Sveinssonar Kjarval (1885-1972). Á öðrum áratug síðustu aldar varð Kjarval fyrir áhrifum frá ríkjandi liststraumum í Evrópu, þar sem sundurgreinandi form og uppbrot sjónarhornsins voru meðal helstu einkenna ýmissa framúrstefnuhreyfinga, einkum hreyfinga kúbista og fútúrista. Kjarval var ekki bundinn á klafa ákveðins stíls eða hugmyndafræði heldur leitaði víða fanga og vann úr stefnum og stílum á persónulegan hátt. Titill sýningarinnar, Líðandin – la durée, vísar í kenningar franska heimspekingsins Henris Bergson (1851-1941) sem var vel þekktur meðal almennings og lista- og menntamanna í Evrópu og Bandaríkjunum í upphafi tuttugustu aldar. Á sýningunni er leitast er við að skoða hvernig áhrif hugmynda Bergsons birtast í myndmáli Kjarvals. Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur. |