Sólveig Anna skrifar:
Í gærkvöld fór ég aðeins út að fjúka í dalnum mínum. Ég hugsaði smá um suma menn; mennina á Íslandi sem að nú taka enn eitt agalegt frekjukastið af því að þeir geta ekki stoppað láglaunakonurnar í því að rísa upp, í því að gera tilraun til að losna undan þeirri efnahagslegu kúgun sem að kapítalisminn og kvenfyrirlitningin hafa þröngvað upp á þær. „Það er búið að ákveða hvað er til skiptana!“ heyrist orgað, það er búið að ákveða að borgarstjóri fái næstum jafn mikið fyrir að mæta á einn fund og kona á fimmtugsaldri fær fyrir að vinna baki brotnu í heilan mánuð. Það er búið að ákveða að konurnar eigi áfram að vera á útsöluverði, að meistaradeild frekustu manna á Íslandi eigi áfram að ákveða hvað er nóg fyrir láglaunakonuna.
Ég hlustaði smá á Talib meðan ég labbaði, m.a. eitt lag sem að ég elska dálítið af þvi að mér finnst svo gaman þegar Jean Grae segir: „Hip-hop’s not dead, it was on vacation, we back, we bask in the confrontation“.
Mér finnst ekkert gaman þegar að orgin hefjast, en samt jú, ok það er smá gaman, gaman eins og rokið af því að ekkert sannar betur að við séum að standa okkur en þegar að Björn Bjarnason, Hörður Ægisson, Staksteinar, og einhverjir gamlir krata-prinsar sem að hafa aldrei svo mikið sem að litið í áttina að láglaunakonunni byrja að hrína.
Þá get ég ekki annað en látið mér líða eins og Jean, og einfaldlega notið þess að eiga í átökum við þessa vitfirringa.
Sumir menn vilja ekki hlusta ekki þegar konur segja frá. Það er leiðinlegt fyrir þá að vera fávitar en hverri dettur í hug að leyfa þeim að ráða?