„Leiðin til vítis er vörðuð góðum ásetningi“
„Vert er að minnast þess, að margir verstu harðstjórar mannkynssögunnar hafa notið víðtæks stuðnings almennings og framið illvirki sín undir yfirskini vísinda og skynsemi. Leiðin til vítis er vörðuð góðum ásetningi – og oft fetuð í litlum skrefum. Þegar samfélagið í dag er borið saman við það sem var við lýði fyrir aðeins tveimur árum blasir við að búið er að taka mörg skref á þeirri hrakför. Samt boða menn nú, í nafni „framfara“, að nauðsynlegt sé að taka fleiri og stærri skref í þá sömu átt. Senn kemur að því að of seint verði að snúa við.“
Það er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Arnar Þór Jónsson, sem skrifar þetta í Mogga dagsins. Pólitískir andstæðingar ríkisstjórnarinnar eru sjaldan svona orðhvassir.
„Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma. Nú sem aldrei fyrr þarf að standa vörð um rétt okkar til gagnrýninnar hugsunar og frjálsrar tjáningar,“ skrifar Arnar Þór.
Stjórnarandstaðan er að mestu í fríi. Hirðir ekkert um pólitík dagsins, með örfáum undantekningum. Sparar sig. Það gerir Arnar Þór Jónsson ekki.