Þær stundir komu í minni barnæsku að óvíst var hvaða, og jafnvel hvort yrði til, matur í næstu máltíð. Fötum slitum við meira en margir aðrir. Stundum varð að setja mannspil í skóna, í freistingu þess að draga úr lekanum, sem fylgir götóttum skósóla.
Ég get haldið upptalningunni áfram. Sé bara ekki tilgang með því.
Mér er alveg sama í hvaða stjórnmálaflokki fólk er, fólk sem talar um fátækt án þess að hafa reynt hana af eigin raun. Málflutningur þess er einatt holur. Er ekki til gagns. Er frekar til ógagns.
Í Silfrinu í gær vildi þingmaður byrja á að ræða vel og vandlega hvort krónan sé framtíðargjaldmiðill okkar, ræða það áður en tekið verður til hendinni, til að bjarga fólki sem er fast í klóm „kverktaka“ einsog Ragnar Önundarson, nefndi þessa nýju ógn við öryggi og hamingju þúsunda fjölslyldna. Fyrirbæri sem þingmaðurinn fagnaði.
Æi, þetta er svo dæmigert.
Það fólk sem aldrei hefur óttast um að fá að borða, eða að eiga öruggt heimili, því er að virðist fullkomlega um megn að skilja hvað fátækt er. Hversu vond og slítandi hún er.
Allt til síðustu daga var talað um Epalkomma. Nú er búið að taka það hugtak í annað. Gott og vel með það.
Má gera ráð fyrir að þeir sem áður voru kallaðir Epalkommar, það er málsvarar þeirra verst settu, sem oftast og nánast einatt, lifa við allt önnur kjör, eigi ómögulegt með að skilja líðan þeirra sem glíma við fátækt og óvissu.
Þeir eru þegar byrjaðir að láta í sér heyra. Þeim er ómögulegt að skilja sársauka annarra. Því miður. Ekkert mun breytast. Allavega ekki til hins betra.
Það er fagnaðarefni að fram stigi fólk sem hvorutveggja, hefur kynnst óvissunni og eins lagt sig fram um að hlusta, og það fordómalaust, á þá sem búa við skort.
Sigurjón M. Egilsson.