- Advertisement -

Leið Vinstri grænna og Framsóknar út úr kolsvörtum skugga Sjálfstæðisflokks

Gunnar Smári skrifar:

Tillaga Pírata um stuðning við minnihlutastjórn VG og Framsóknar er allra athygli verð. Slík stjórn myndi draga þessa tvö flokka úr kolsvörtum skugga Sjálfstæðisflokksins, gæfi þeim færi á að baða sig í sviðsljósi efnahagsaðgerða í fimm mánuði eða svo, ef gert er ráð fyrir kosningum í maí.

Samkvæmt nýjustu könnun MMR hafa þessir flokkar aðeins fylgi sem dugar fyrir sitthvorum fimm þingmönnunum, VG horfir fram á að tapa fjórum til viðbótar við þá tvo sem flokkurinn missti á kjörtímabilinu og Framsókn að missa þrjá. Framsókn á sér sögu um að redda sér í kosningabaráttu en VG alls ekki, missti allan vind úr seglum sínum 2017. Á sama tíma stendur Sjálfstæðisflokkurinn skítsæmilega í könnunum, sé miðað við síðari tíma sögu flokksins. Mögulega er þarna komið hið stóra tækifæri VG og Framsóknar.

Gallarnir eru hins vegar nokkrir. Í fyrsta lagi hafa þessir flokkar aðeins 17 þingmenn og þyrftu að finna aðra 15 til að verja stjórnina vantrausti. Píratar eru 6 og þá vantar að finna 9 þingmenn sem sjá sér hag af því að núverandi ríkisstjórn félli og að kosið yrði í vor.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samfylkingin hefur hugsað sér að sækja fylgi til þeirra kjósenda VG sem hafa ógeð á þjónkun forystu flokksins við auðfólkið í Sjálfstæðisflokknum. Ef ríkisstjórnin fellur og VG fær að leiða minnihlutastjórn án xD þá minnkar líkurnar á slíkum afla. Samfylkingin er nú með 8 þingmenn og færi langt með að fylla kvótann, en yrði líklega tvístígandi.

Viðreisn ætlar að sækja á það fylgi sem yfirgefið hefur Sjálfstæðisflokkinn vegna málamiðlana sem flokkurinn hefur gert í ríkisstjórnarsamstarfi með VG og Framsókn. Guð má vita hvað það er í raun, en kenningin er að flokkurinn hafi þurft að slá af einhvers konar frjálslyndi (sem hann býr ekki yfir). En hvað um það; Viðreisn hefur sama hag af því að halda Sjálfstæðisflokknum innan ríkisstjórn og Samfylkingin hefur hag af áframhaldandi þjáningu VG. Til viðbótar dreymir Viðreisn helst um ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, og getur því illa stuðlað að niðurlægingu þess flokks. En Viðreisn er með 4 þingmenn, aðeins upp í það sem vantar en alls ekki nóg.

Miðflokkurinn er með heila 9 þingmenn en er ólíklegur til samstarfs með Pírötum, verður ekki boðið. Það er líka hæpið að nokkur vilji eiga pólitískt líf sitt undir Sigmundi Davíð & co.

Flokkur fólksins hefur 2 þingmenn og svo er Andrés Ingi einn utan flokka. Þetta er allt þingmenn sem eiga á hættu við að falla af þingi í haust. Þau gæti metið það svo að betra sé að sitja á þingi til september en að falla strax í maí. En á móti kemur að sá sem er í mestum vanda hefur minnstu að tapa.
Ef Píratar vilja ná því fram að VG og Framsókn vísi Bjarna Benediktssyni á dyr ættu þeir að sannfæra Samfylkinguna og Flokk fólksins um að gera einhverjar viðráðanlegar kröfur fyrir stuðningi sínum við minnihlutastjórnina. Það er hálfur sigur. Hinn er að sannfæra forystu VG og Framsóknar um að mestar líkur á framhaldslífi í pólitík sé ekki núverandi ríkisstjórn með einhverri viðbót eftir kosningar; Viðreisn og Miðflokknum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: