- Advertisement -

Laxeldið skiptir öllu máli fyrir þorpin

„Starfsgreinin er umdeild, á því leikur enginn vafi.“

Iða Marsibil Jónsdóttir.

Alþingi „Í gær varð ljóst að svokallað lagareldisfrumvarp næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Það þóttu mér afar slæmar fréttir og ég spyr: Er þetta eitthvert grín?“ sagði varaþingmaður Framsóknar á Alþingi, Iða Marsibil Jónsdóttir.

„Ég kem frá sunnanverðum Vestfjörðum og starfaði við fiskeldi um árabil. Til að setja hlutina í eitthvert samhengi þá var það fyrst árið 2014 sem fyrstu seiðin voru sett í sjó hjá því fyrirtæki. Eftir tíu ár er staðan orðin sú að á síðasta ári framleiddi það fyrirtæki tæplega 18.000 tonn af laxi og hjá því vinna um 200 manns, að mestu leyti á svæðinu, en íbúar þar telja 1.400,“ sagði Iða Marsibil.

„Í stuttu máli sagt, virðulegur forseti, skiptir þessi atvinnuvegur öllu máli fyrir þorpin fyrir vestan núorðið. Ég leyfi mér að fullyrða það hér að árið 2014 var ekki sérlega bjart fram undan í þessum þorpum fyrir vestan og máttu þau muna sinn fífil fegri. Á síðasta kjörtímabili sat ég í bæjarstjórn í Vesturbyggð. Þá og allar götur síðan hafa bæjaryfirvöld þar og atvinnugreinin sjálf kallað eftir skýrari lagaramma um þessa atvinnugrein. Gjaldtökuheimildir verða að vera skýrar og starfsemin með þeim hætti að umhverfissjónarmið séu höfð að leiðarljósi. Starfsgreinin er umdeild, á því leikur enginn vafi, en hún hefur fest sig í sessi og því brýnt að horfa fram á við og vil ég nota tækifærið hér til þess að brýna þingmenn til að klára málið ákveðið og með sóma á haustþingi,“ sagði Iða Marsibil Jónsdóttir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: