„Í stærra samhengi hluta er því miður hætt við því að þetta sé ekki einangrað tilvik sem um ræðir,“ sagði þingmaðurinn Teitur Björn Einarsson, um mál HB Granda á Alþingi í dag.
„Mikil hækkun launa, veruleg styrking krónunnar, háir vextir setja fjölmargar fiskvinnslur í verulegan vanda víða um land og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að gjöld á atvinnuveginn umfram aðrar útflutningsgreinar eru íþyngjandi, gjöld sem leggjast sérstaklega þungt á lítil og meðalstór fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni. Ef það er raunverulegur vilji til þess að treysta atvinnuskilyrði, auka starfsöryggi starfsfólks og auka byggðafestu hlýtur lækkun þeirra að vera einn valkostur sem er í stöðunni,“ sagði hann.
Teitur Björn tók undir með mörgum hversu mikið högg ákvörðun stjórnenda HB Granda kann að verða. „Það er ekki ofsögum sagt af þeim fréttum af áformum HB Granda að hætta bolfisksvinnslu á Akranesi og segja upp allt að 93 manns að það sé mikið reiðarslag, mikið áfall fyrir það starfsfólk sem á í hlut og íbúa alla.“