Laus undan þingstörfum í 265 daga
„Að jafnaði eru 100 þingdagar á ári svo það eru eftir 265 dagar sem ég sem þingmaður hef til að rækta fólkið í mínu kjördæmi.“
Ásmundur Friðriksson skrifaði grein á eyjar.net. Hann byrjar á að segja að þingmennska sé ólík öllum hans fyrri störfum. „Hann er kosinn til starfa og hans eini yfirmaður er kjósandinn sem á kjördag veitti honum umboð sitt. Enginn annar en kjósandinn getur sagt þingmanninum upp störfum.“
„Þegar kjósendur í Suðurkjördæmi veittu mér brautargengi í kosningunum vorið 2013 tók ég strax þá ákvörðun að verða sýnilegur þingmaður, þjónn fólksins. Leggja mig fram um að kynnast sem flestum í víðfeðmu og fjölmennu kjördæmi og setja mig inn í þau mál sem brenna á samfélögum frá Garðskaga í vestri að Þvottárskriðum í austri. Þetta kostar mikla vinnu og ferðalög.“
Telur sig vera heppinn
Hann fer nokkrum orðum um þátttöku sína í gleði og sorgum kjósenda sinna. Ásmundur er þekktur af stuðningi við allskyns málefni.
„Ég er heppinn, hef verið beðinn að aðstoða við fjölmörg mál sem snerta einstaklinga og fyrirtæki í kjördæminu. Þá legg ég lið á skemmti- og góðgerðarkvöldum og ég mæti sem ræðumaður eða gestur á fjölda skemmtana. Þannig tek ég þátt í gleði og sorg samfélagsins og mæti gjarnan í útfarir og heimsæki fólk á spítala og dvalarheimili.“
Mikill akstur
„Allt kostar þetta mikinn akstur og fjarveru af heimilinu. Að jafnaði eru 100 þingdagar á ári svo það eru eftir 265 dagar sem ég sem þingmaður hef til að rækta fólkið í mínu kjördæmi. Ég lít á það sem skyldu mína að nýta þessa daga til að eiga beint samtal við kjósendur og kjósendur eiga kröfu á að ég sinni þessari skyldu minni af trúmennsku.“
Hann skýrir hinn mikla akstur: „Til að sækja þingfundi ek ég u.þ.b. 12.000 km á ári og u.þ.b. 30-35.000 km til að ferðast í kjördæminu á hverju ári. Ég fer um og yfir 100 ferðir um kjördæmið og er hver ferð að meðaltali 300 km. Gera má ráð fyrir að þessar ferðir sem flestar eru farnar um helgar og á kvöldin. Um allflestar þessara ferða má lesa á fésbókinn minni. Þar eru myndir af þeim sem ég hitti og oft stutt frásögn af því sem ég upplifði. Segi frá starfsemi fyrirtækja eða mannlífi á förnum vegi. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir hjá fólki í mínu kjördæmi og langt út fyrir það.“
Skilar akstursdagbók
„Árin sex í þingmennsku hafa því verið viðburðarík og skemmtileg. Um hver mánaðamót frá maí 2013 hef ég í 68 skipti skilað inn aksturbókinni og geri enn. Ég hef aldrei fengið athugasemdir. Skrifstofa þingsins hefur heldur ekki talið ástæðu til að óska eftir frekari útskýringum,“ skrifar hann.
Og svo hnýtir hann í Pírata:
„Það væri áhugavert ef Píratar gætu gefið okkur mynd af sínum störfum í þágu kjósenda sinna og hvernig þeir hafa ráðstafað þeim 265 dögum sem þinghald stendur ekki yfir á hverju ári.
Hvað sem því líður mun ég áfram heimsækja fólkið í mínu kjördæmi, vakna snemma og mæta í morgunkaffi með Suðurvíkurfjósadrengjunum í Norður Vík í Vík í Mýrdal þegar þeir kalla eða ganga frá Keflavík á fund í Grindavík. Ég mun halda áfram að þjónusta kjósendur mína í Suðurkjördæmi sem í enda dagsins munu leggja dóm á mín störf.“