- Advertisement -

Launin mættu vera betri

Texti og ljósmynd: Alda Lóa. „Þegar ég var sautján ára þá fannst mér ég vera orðin fullorðin og þyrsti í að komast út í lífið og giftast. Ég veit auðvitað ekki hvað ég var að hugsa á þeim tíma. Heima var engin að blanda sér í mín mál, ég þurfti að sjá um mig sjálf en stjúpi og mamma höfðu nóg annað að gera.

Frænka mín sem bjó á Akureyri kom út til Thailands og lýsti kostunum við landið og kynnti mig fyrir íslenskum manni sem ég átti eftir að giftist síðar, ég féll fyrir þessu öllu. Tveim mánuðum eftir að ég kom til Íslands eignaðist ég eldri son minn sem er 25 ára í dag. Ég hef verið á Íslandi meiri hluta ævinnar og þekki landið miklu betur en Thailand. Eftir að ég missti mömmu hef ég ekki mikið að sækja til Thailands og síðast þegar ég fór erlendis í frí var það til Spánar.
Ég lærði íslensku

Neyddist til að drekka kaffi

Þegar ég kom til landsins á sínum tíma byrjaði ég á því að fara á íslenskunámskeið og taka bílpróf. Ég prófaði störf bæði á Eir og Hardrock, en ílengdist í heimaþjónustu í tíu ár. Ég réði mig á Miðborg, sem er heimaþjónustan í Grafarvogi. Starfsfólkið þar kom víða að, pólskt, íslenskt og thailenskt. Í þeirri vinnu þurfti ég að tala við vinnufélaga og heimilisfólk, setjast niður og neyddist til að drekka kaffi sem ég drekk annars ekki. En það var samveran við gamla fólkið þar sem skipti mestu máli. Ég var að aðstoða og fara á milli húsa og fólk vildi gjarna hafa sama fólkið í kringum sig, sömu andlitin, ég lærði íslensku en komst líka að því að nálægðin við fólkið var ekkert síðri mikilvæg en tungumálakunnáttan.

Allt er svo dýrt

Síðan varð ég lasin, það var eftir að ég eignaðist yngri strákinn minn, ég fékk heiftarlega vöðvabólgu sem lýsti sér þannig að ég var dofin öðrum megin og þessu fylgdi stöðugur hausverkur. Ég hélt að ég væri að verða klikkuð og fór á milli lækna, meira að segja til geðlæknis. Þannig að ég var frá vinnu í ár, fór í ræktina, jóga, labbaði og tók vöðvaslakandi lyf, og allt saman hjálpaði þetta eitthvað. En eftir ár í þessu ástandi gat ég ekki verið lengur heima og vinkona mín sagði mér að það væri laust starf í Hámu og hér hef ég verið síðastliðin þrjú ár. Ég mæti klukkan sex og vinn til hálf tvö á daginn. Fyrst bý ég til Smoothies og síðan undirbý ég og fylli á salatbarinn. Ég sleppi pásu og fæ borgað til tvö. Ágætt starf og fínt að hafa vinnu og laun eftir að hafa verið lasin. Launin mættu vera betri, en vandamálið er að allt er svo dýrt, og alveg sama hvað launin hækka að allt annað hækkar um leið.

Ég er sveitastelpa frá Thaílandi

Sambýlismaðurinn minn er smiður og er að byggja hús fyrir okkur. Ég átti mína íbúð þegar við kynntumst og hann sína og við seldum og fluttum saman, en núna erum við að byggja okkar eigið og á meðan leigjum við af vini okkar. Við erum að reyna að klára, allavega fokhelt, þá getum við flutt inn. Strákurinn okkar er að verða tólf ára og er skráður í skólann í dalnum í vetur og vonandi náum við að koma okkur fyrir sem fyrst. Ég er sveitastelpa frá Thaílandi að byggja hús í Úlfarsárdal.“

Duan Buakrathok vinnur á salatbarnum hjá Hámu, kaffiteríu stúdenta og er félagi í Eflingu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: