- Advertisement -

Launin eru alveg skelfileg

Fólkið í Eflingu, texti og mynd: Alda Lóa. „16 ára fór ég á sjóinn, hafði hugsað mér að læra trésmíði en svo kom samdráttur í byggingariðnaðinn og þá lá bara fyrir að fara á sjóinn og þar var ég svo bara í mörg ár. Fór að vísu í Vélskólann og bætti við mig vélstjóraréttindunum.

Eiginkonan mín fyrrverandi varð leið á fjarveru minni af heimilinu, sem stundum voru nokkrir mánuðir í senn, og þegar hún fékk góða vinnu á Sauðárkróki fluttum við þangað og ég reyndi fyrir mér í landi.
Á Sauðárkróki prófaði ég sitt lítið af hverju, þar á meðal kenndi ég vélfræði  fjölbrautaskólann og vélfræðireikning og stýritækni og þess háttar. En þetta voru litlar tekjur og ég gafst upp á þessu á endanum. Samt var þetta ágætis tími, af því stelpan mín var lítil og ég gat sótt hana í leikskólann og sinnt henni, tími sem ég er reyndar rosalega þakklátur fyrir.

Þú þarft að vera innfæddur og af fimmta ættlið til þess að komast inn í samfélagið á Sauðárkróki, og við vorum tilbúin að prófa eitthvað nýtt og fluttum á Akranes. Þar áttum við allavega ættingja en það var lítið að gera fyrir mig í byrjun, þangað til að ljósið kom með Norðuráli og Hvalfjarðargöngunum og við tók þvílík þensla og brjáluð vinna á þessu svæði að hið hálfa væri haugur, maður vann sex daga vikuna, alveg endalaust.

Þegar Hrunið kom bjó ég enn þá á Skaganum, ég hélt sjó með endalausri vinnu, borgaði upp skuldir af húsinu, skildi og borgaði helminginn út og svo þegar ég var búinn að vinna mig út úr því þá yfirgaf ég staðinn, en mér þykir þrátt fyrir allt vænt um Skagann.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég flutti í Hafnarfjörðinn og réði mig hjá Vélsmiðjunni Héðni og var þar í fjögur ár eða þangað til að mér var sagt upp, vegna samdráttar í skipaviðgerðum. Þá hugsaði ég með mér: að þetta væri ekki hægt, ég yrði að hætta þessu. Líkaminn hafnaði þessu líka, ég hef tvisvar farið í aðgerð á bakinu. Og núna þegar rigningin lemur á gluggann þá veit ég hvað það er gott að standa ekki uppi á þilfari að gera við einhver spil eða vera í öxuldrætti.

Ég hef alltaf unnið í karlastörfum þangað til að ég réði mig á lagerinn á G-3 á Borgarspítalanum. Hérna geri ég allt frá því að hella upp á kaffi og halda löpp sem verið er að gipsa, ég trilla sjúklingum inn í röntgen og segulómum, held stofunum fínum, ég aðstoða hjúkrunarfræðinga þegar það þarf og geng i endalaus önnur tilfallandi störf.

Þetta er fjölbreytt, sjúklingarnir eru svo ólíkir eins og mannflóran öll, ég hitti fólk sem biðst afsökunar á eigin tilveru, og fólk sem er forhert af frekju og allt þar á milli. Ég fann nýja hlið á mér: ég hef gaman af fólki. Það var meir að segja gömul kona á tíræðs aldri að segja mér að ég væri með góðlegan svip, það bjargaði deginum.

Hér vinn ég alltaf aðeins 8 tíma og mér líkar það vel, ég er hættur að vilja vinna þetta 14 til 18 tíma á dag. Vaktirnar í Norðurál eru enn þá 12 tíma langar en þeir gáfust upp á þessu í álverinu fyrir austan, konurnar mótmæltu, þær þurftu að sækja börnin og sinna þeim. Vaktavinna er erfið, og kannski er það aldurinn sem hefur færst yfir mig. Við gerðum rannsókn á þessu þegar ég var hjá Norðuráli og þá kom í ljós að menn sem komu þangað um fertugt og byrjuðu á 12 tíma vöktum voru flestir farnir frá þeim eftir fimm ár, svona langar vaktir eru mannskemmandi.

Á spítalanum eru launin hins vegar alveg skelfileg, maður þarf að skoða reikningana sína og flokka og borga þann sem er heitastur í hvert sinn. 95 prósent af þeim sem ég vinn með á G-3 eru konur, við erum bara þrír karlar á allri deildinni. Umræðuefnin eru ólík hér frá karlavinnustöðum, konurnar tala um börn, barnabörn og óléttur. Á kallavinnustað er talað um vélar, konur og pólitík. Ef talið berst að launamálum eru kynin líka ólík, konur hafa veika hugmynd um ásættanleg laun og karlarnir geta verið ansi digrir með sig, og talað sig upp í tölur sem eru alveg út úr öllu korti.

Vinnan á spítalanum er áskorun, ég þarf að læra á óteljandi margar tegundir af plástrum, það var ákveðin uppgötvun að komast að því hvað það eru til margar tegundir, en í neyðarkassanum á sjónum var bara ein tegund, heftiplástur. Hjúkkurnar geta verið sérvitrar á plástrana þær nota sitthvorn plásturinn á samskonar sár, og þá þarf ég að gæta þess að báðar tegundirnar séu til staðar í skúffunni.

Það er mikið álag á fólkinu hérna á spítalanum allan daginn, það er helst fyrir hádegi á sunnudögum að það er hægt að anda, en svo stigmagnast álagið þegar líður á daginn. Vinnuaðstæður eru ekki þær sömu í dag og þær voru, hvorki hér né annars staðar. Ég fór á línubát, eina ferð í vor, eftir 25 ára hlé, og margt hafði breyst á þessum tíma. Þetta var viku túr og það var góður peningur, fullt skip af þorski. En það er miklu meira lagt á áhöfnina í dag, mannskapnum hefur fækkað um borð og vinnuálagið er með ólíkindum, það voru miklu fleiri menn að vinna um borð í gamla daga.

Þessi hagræðing á vinnustöðum er ómanneskjuleg. Ég man þegar það kom einu sinni einhver tæknifræðingur í Stálsmiðjuna sem átti að hagræða á vinnustaðnum, hann kom með blað og blýant og skrifaði hjá sér hvað við notuðum mikinn tíma til þess að gera hitt og þetta. „Hvað tekur langan tíma að gera við dexel? Smíða 5 metra langt rör með beygju? og sjóða í plötu? og skipta um hitt og þetta?“ Svo reiknaði hann eitthvað áfram og niðurstaðan var þessi, að reka skúringakonuna.“

Sigurður Einarsson er starfsmaður á Bráðavaktinni og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflingu Sjáfleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: