- Advertisement -

Launavitleysunni verður að ljúka

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir að ofurlaunahækkanir verði að heyra sögunni til. „Já, það er þyngra en tárum taki að til sé fólk og börn í þessu landi sem geta ekki stundað tómstundir, geti ekki haldið fermingarveislur og fleira sökum lágra tekna foreldra sinna.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kom allra mest á óvart í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöld. Ásmundur Einar talaði um ofurlaun, græðgi og hversu vond misskiptingin er. Hann studdi mál sitt með dæmum úr raunveruleikanum.

Himinhá laun með risabónusum

Hann sagði í upphafi ræðu sinnar: „Ári fyrir fall bankanna blöskraði mörgum hvernig toppar samfélagsins voru komnir á himinhá laun með risabónusum. Dæmi voru um að árslaun sumra einstaklinga væru hærri en verkamaður getur látið sig dreyma um á heilli starfsævi.“

„Ég segi við lífeyrissjóðina og aðra sem eiga í þessu fyrirtæki að þessari vitleysu verður að ljúka. Þessa tillögu verður að draga til baka.“
Þú gætir haft áhuga á þessum
„Sú hækkun er hins vegar 25 sinnum lægri en t.d. hækkun launa forstjóra N1 á milli áranna 2015 og 2016, en þá hækkaði forstjórinn um rúmlega 1 millj. kr. á mánuði.“

Þyngra en tárum taki

„Eftir fall bankanna tóku allir á sig byrðar til að rífa upp efnahagslífið. Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og að skilja eigi eftir bæði millistéttina og lægri tekjuhópa. Já, það er þyngra en tárum taki að til sé fólk og börn í þessu landi sem geta ekki stundað tómstundir, geti ekki haldið fermingarveislur og fleira sökum lágra tekna foreldra sinna. Þegar slíkar sviðsmyndir finnast enn er verk að vinna,“ sagði félagsmálaráðherra.

Fékk 25 sinnum meira

„Ég hef að undanförnu verið að fara yfir og reyna að skilja launauppbygginguna í þessu ágæta landi okkar,“ sagði Ásmundur Einar.

„Ég hef m.a. átt fund með stjórnarformönnum þeirra opinberu fyrirtækja sem hafa verið að hækka laun forstjóranna. Í flestum tilfellum eru hækkanir rökstuddar með því að laun forstjóra verði að vera í takt við það sem gerist hjá einkafyrirtækjum. Í ljósi þessa er fróðlegt að skoða hækkanir á einkamarkaði hjá stórum fyrirtækjum og bera saman við lægstu laun. Sem dæmi má nefna hækkuðu laun þriggja lægst launuðu hópanna um 8–9% milli áranna 2015 og 2016. Í krónum talið eru þetta hækkanir að meðaltali undir 40.000 kr. á mánuði. Sú hækkun er hins vegar 25 sinnum lægri en t.d. hækkun launa forstjóra N1 á milli áranna 2015 og 2016, en þá hækkaði forstjórinn um rúmlega 1 millj. kr. á mánuði. Á sama tíma og þetta gerðist var þetta ágæta fyrirtæki í meirihlutaeigu íslensku lífeyrissjóðanna, rúmlega 50%. Nú berast okkur fréttir af því í dag að þetta ágæta fyrirtæki ætli að taka upp kaupaukakerfi á nýjan leik, bónusgreiðslur, sem eigi að fara fyrir hluthafafund síðar í þessum mánuði. Ég segi við lífeyrissjóðina og aðra sem eiga í þessu fyrirtæki að þessari vitleysu verður að ljúka. Þessa tillögu verður að draga til baka.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: