Stjórnmál

Launafólk ráði meiru í lífeyrissjóðunum

By Miðjan

March 21, 2021

„Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum og geri það fyrir hönd gervalls þingflokks Flokks fólksins,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á Alþingi og sló á létta strengi. Eins og við öll vitum eru aðeins tveir þingmenn í þingflokki Fólks flokksins, Inga og Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Eftir kjarasamningana vorið 1969 hafa stjórnir lífeyrissjóða almennt verið skipaðar til helminga af Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd launagreiðenda og af viðkomandi stéttarfélagi, en án aðkomu hins almenna sjóðfélaga sem er þó ásamt launagreiðanda skyldaður til að greiða í lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Launagreiðendur hafa ávallt tilnefnt fulltrúa til setu í stjórnum lífeyrissjóða og á það sér sögulegar skýringar og grundvallaðist í upphafi á hinni gömlu, góðu svokölluðu húsbóndaábyrgð,“ sagði Inga.

„Mikil breyting hefur orðið á húsbóndaábyrgðinni og framfærsluskyldu almennt. Framfærsluskyldan er að mestu komin yfir til opinberra aðila og hvílir meginþunginn á sveitarfélögunum en nokkur hluti er hjá ríkinu. Fáum dettur í hug að launagreiðandi hafi skyldu til að framfæra fyrrverandi starfsmenn, eins og var hér á árum áður, hvort sem þeir hafa hætt störfum sökum aldurs eða vegna örorku. Þannig hefur hin forna húsbóndaábyrgð flust yfir til Tryggingastofnunar ríkisins, skattkerfisins (barna- og vaxtabætur), lífeyrissjóða, húsaleigubóta og félagsþjónustu sveitarfélaga. Því er ekki lengur sama ástæða fyrir því að launagreiðendur eigi sæti í stjórn lífeyrissjóða. Það hefur bara ekkert með það að gera.“