Launaðir áróðursmenn
- segir Davíð Oddsson, um forystu launafólks, þegar hann reynir allt hvað hann getur til að draga Bjarna upp úr forarpyttinum sem hann stökk í á gamlársdag.
Davíð tekur djúpt í árinni í Staksteinum dagsins. Hann ræðst þar í mikið verk, þar sem hann reynir allt hvað hann getur, til að breiða yfir vangetu Bjarna Benediktssonar til lesa og skilja, til þess að gera, einfaldar skýrslur Hagstofunnar.
Í viðleitni sinni stekkur Davíð út í forarpottinn til Bjarna: „Staðreyndir eiga iðulega undir högg að sækja þegar hart er tekist á. Eitt lítið dæmi um þetta eru orð fjármálaráðherra í sjónvarpsþætti á gamlársdag, eða öllu heldur þær umræður sem um þessi orð spunnust. Fjármálaráðherra benti á að aðeins 1% sé með laun upp á 300.000 krónur á mánuði. Í þessu vísaði hann til talna Hagstofunnar um heildarlaun fullvinnandi launamanna árið 2017.“
Sú fullyrðing Bjarna hefur reynst röng, alröng. Eðlilega hafa viðbrögðin verið nokkur, enda gegnir sá sem lét hana falla embætti fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Davíð reynir allt hvað hann getur, og kannski aðeins meira en það:
„Þessi orð fjármálaráðherra ollu miklu uppnámi meðal einstakra talsmanna og launaðra áróðursmanna verkalýðshreyfingarinnar. Þessir menn kusu að túlka orð fjármálaráðherra á annan hátt en ástæða var til og afbaka þau svo að hentaði málstaðnum.“
Hér snýr ritstjórinn staðreyndum á haus, og eflaust ekki í fyrsta sinn.
Næst spyr Davíð og svarar:
„Og hver ætli málstaðurinn sé? Jú, svo undarlega vill til að verkalýðshreyfingin, sem ásamt öðrum hefur ástæðu til að þakka sér og fagna þeim mikla árangri sem náðst hefur í að bæta kjör almennings hér á landi á liðnum árum, virðist telja það eitt brýnasta verkefni sitt nú að tala þennan árangur niður.“
Niðurstaða Davíðs af þessu öllu er svo þessi: „Ekki verður annað séð en að það sem fyrir verkalýðsforkólfum vaki sé að byggja með þessu undir kröfur um áframhaldandi gríðarlegar launahækkanir sem atvinnulífið stendur engan veginn undir.“
Það skyldi þó aldrei vera. Og að lokum kom eitt vindhöggið enn:
„Og til að halda fram slíkum kröfum virðist forysta sumra verkalýðsfélaga telja nauðsynlegt að hafna staðreyndum. Hvers konar málstaður er það sem kallar á slík vinnubrögð?“