Laugavegur – lengsta göngugata heims
Guðrún Jóhannesdóttir, kaupmaður í Kokku á Laugavegi og formaður Miðborgarinnar okkar, er hrif in af lokun Laugavegar og Skólavörðustígs. Fleiri kaupmenn eru annarrar skoðunar. Bolli Kristinsson er í þeim hópi. Bolli skrifar grein í Moggann í dag. Þar telur hann upp verslanir sem hafa rekstri i miðbænum og flutt annað:
„Michelsen, Lífstykkjabúðin, Kirkjuhúsið, Tískuverslunin Flash, Sigurboginn, Reykjavík Live, Kroll, Maia, Tískuverslunin Brá, Tískuverslunin Dís Dís, Galleria, Gallerí Korka, Reykjavík Foto, Herrahúsið, Stefan B, Rauðhetta og úlfurinn, GK, B16 lífsstílsbúð, Spaksmannsspjarir, Gjóska og Ostabúðin. Við sjáum öll eftir þessum verslunum og við myndum líka sjá eftir Kokku ef hún yfirgæfi miðbæinn,“ skrifar Bolli.
Af skrifum Bolla má sjá að Guðrún í Kokku sér miðbæinn mun stærri en margur annar. Og þar á meðal Bolli:
„Þú hefur nefnt að nýjar verslanir spretti upp úti á Granda. En Grandi er ekki miðbær Reykjavíkur. Ekkert frekar en Skeifan eða Ármúli. Við erum að tala um Laugaveg, Bankastræti og neðri hluta Skólavörðustígs.“
Bolli, og þeir sem eru sama sinnis hafa áhyggjur: „Nú stendur til að útvíkka lokunarsvæðið og búa til eina lengstu göngugötu heims hér norður við heimskautsbaug. Lok lok og læs frá Hlemmi að Lækjartorgi árið um kring í andstöðu við yfirgnæfandi meirihluta rekstraraðila. Af fenginni reynslu að dæma getur þetta ekki endað með öðru en skelfingu. Umferðina um svæðið þarf þá að teyma í enn frekari krókaleiðir inn um íbúðarhverfin. Hvað ætli íbúar við Grettisgötu segi um það, eða Njálsgötu, Bergstaðastræti og Þingholtin? Vart mun meiri umferð bíla gleðja þá.“
Bolli Kristinsson hefur verið gagnrýnin á Dag B. Eggertsson borgarstjóra, og er enn:
„Ef gerræðisleg vinnubrögð og yfirgangur meirihluta borgarstjórnar með minnihluta atkvæða nær fram að ganga á eftir að verða neyðarástand í miðbænum, sem verður þá ekkert annað en lífvana minnismerki um hrokafulla og vanhæfa borgarstjórn og borgarstjóra. Við ætlum að afstýra því að þetta gerist, berjast gegn óréttlætinu og yfirganginum fram í rauðan dauðann. Við skorum á Miðborgina okkar að hrista af sér taumhald borgaryfirvalda, sýna sjálfstæði og taka þátt í baráttunni um að bjarga miðbænum. Vertu með okkur í liði, Guðrún í Kokku!“