„Á góðum degi skipta gestir Laugavegsins tugum þúsunda,“ segir orðrétt í bókun meirihlutans í borgarráði. Ekki góð íslenska. En skoðum innihaldið:
„Það að loka nokkur hundruð metra löngum kafla fyrir bílum ætti ekki að þarfnast meiri umræðu. Það eru flestir rekstraraðilar sammála um sumargötur, langflestir íbúar borgarinnar sömuleiðis – og samkvæmt könnunum, þá eru þeir gestir sem fara oftast á Laugaveginn langmest fylgjandi því að loka honum fyrir bílum. Á góðum degi skipta gestir Laugavegsins tugum þúsunda þar sem verslun og viðskipti blómstra og engin þörf á því að bílar keyri niður götuna. Bílastæðin eru fjölmörg og auðvelt og aðgengilegt að komast leiðar sinnar. Í ljósi heimsfaraldursins þá munu veitingamenn nú fá leyfi til að dreifa betur úr sér í og við götu ásamt því að verslanir geti komið með vörur og varning út stétt. Þá er ekki lengur pláss fyrir bílana,“ segir meirihlutinn. Við lítinn fögnuð Vigdísar Hauksdóttur og Kolbrúnar Baldursdóttur, Miðflokki og Flokki fólksins.
Sem svo oft áður heyrðist ekki múkk frá ósamlyndum Sjálfstæðisflokki.