STJÓRNMÁL „…ég hef ekki með neinum hætti beitt mér eða reynt að hafa áhrif á dagskrá háskólaráðsfunda, hvað þar er tekið fyrir eða hvenær. Ég tel reyndar að það væri ekki við hæfi að menntamálaráðherra, hvorki ég né nokkur annar, gerði það,“ svaraði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra spurningu Oddnýjar G. Harðardóttur um ákvörðun Háksólans um að hætta námi íþróttakennara að Laugarvatni.
Oddný spurði einnig hvort Illuga þætti það ásættanlegt að þjónusta Háskóla Íslands við landsbyggðina fari minnkandi og að eina háskólastofnunin á Suðurlandi sé lögð af án raunverulegra tilrauna til að sporna við fæti.
„Ég get haft mínar skoðanir á ýmsu sem háskóli gerir en ég á ekki að hlutast til um dagskrá háskólaráðsins eða innri málefni skólans. Háskólinn nýtur mikils sjálfstæðis, það er varið með lögum, og hann þarf að taka ákvarðanir um sín innri málefni og bera ábyrgð á þeim. Reyndar hafði mér skilist að þessu máli hefði verið frestað nú þegar, frestað um einhverjar vikur að taka endanlega ákvörðun, en hv. þingmaður bendir á að málið sé til fyrirtöku í ráðinu í dag,“ sagði Illugi.
Oddný vildi vita hvort málið hefði verið rætt í ríkisstjórninni; „…sem meira að segja vill kenna sig við Laugarvatn?“ Því svaraði ráðherra ekki á þeim skamma tíma sem hann hafði til að svara.