Erna Bjarnadóttir, varamaður Birgis Þórarinssonar, ætlar ekki að fylgja Birgi í Valhöll. Birgir hafði fullyrt annað. Nú virðist sem Birgir sé ekki eins vænlegur biti og virtist í fyrstu. Sjálfstæðismenn sitja uppi með Birgi. Vandinn er núna þeirra.
En hvað gekk Valhellingum til að þiggja Birgi undir þessum kringstæðum. Kannski sagði hann ósatt hvað varðar Ernu. En það er ekki allt. Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar ögn, í hinn hríðfallandi Mogga, um vistaskipti Birgis. Þá var ekki vitað að Erna Bjarnadóttir er ekki á leiðinni í Valhöll.
Birgir segir nú að Erna hafi gengið á bak orða sinna. Hún hafi ætlað með sér yfir í Sjálfstæðisflokkinn.
Jón Steinar skrifar:
Ég held ég myndi varla nenna að stinga niður penna til þess eins að áfellast þennan mann fyrir hátterni hans. Það er hins vegar ástæða til að staldra við og spyrja, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þessu með honum? Með því háttalagi gerist sá flokkur meðsekur í háttsemi mannsins. Komið hefur fram í fréttum að enginn þingmanna flokksins greiddi atkvæði gegn því að taka við honum. Þingflokkurinn hefur þá upplýst að hann er til í að taka þátt í siðlausum brotum annarra ef hann aðeins telur sig hagnast á því – í þessu tilviki með því að fá viðbótaratkvæði á þingi.