„Þetta hjáróma tiltal Fjölmiðlanefndar verður tæplega til að Ríkisútvarpið breyti framgöngu sinni á auglýsingamarkaði. Þeir sem stofnuninni stýra hafa séð að þeir komast upp með nánast hvað sem er og þegar þeir brjóta lög um auglýsingar, og brjóta þar með gegn keppinautum á markaði, meðal annars Símanum, sem er sá sem kvartaði undan ofangreindum brotum, þá fá þeir ekkert annað en laufléttar skammir og geta haldið áfram að leita að nýjum leiðum til að teygja og toga þau lög sem stofnunin á að fara eftir,“ þannig endar leiðari Moggans í dag.
Þar er fjallað um yfirburði og yfirgang Ríkisútvarpsins og auma aðkomu fjölmiðlanefndar.
„Ríkisútvarpið leikur lausum hala á auglýsingamarkaði, nánast eftirlitslaust, og nýtir sér þar fimm milljarða forskot frá skattgreiðendum. Þetta hefur ítrekað komið í ljós og í tengslum við stærri viðburði, líkt og heimsmeistaramótið í knattspyrnu eða Eurovision-söngvakeppnina, hefur stofnunin leyft sér að ganga enn lengra en hún annars gerir.
Stjórnendur stofnunarinnar kannast aldrei við yfirgang sinn og brot og þeir sem eftirlit eiga að hafa með þeim og gæta þess að þeir hegði sér í samræmi við stöðu stofnunarinnar og lög sem um hana gilda, eða almenn samkeppnissjónarmið, gera lítið sem ekkert til að hemja þessa yfirgangssömu stofnun,“ seggir á sama stað.
„Á dögunum gerðist það þó að Fjölmiðlanefnd, sem hefur almennt lokað augum og eyrum fyrir framkomu Ríkisútvarpsins en um leið einbeitt sér að því að þvælast fyrir einkareknum miðlum, úrskurðaði gegn Ríkisútvarpinu. Stofnunin hafði gengið allt of langt í kostun á þáttum í tengslum við Eurovision. Í lögum um Ríkisútvarpið er almennt bann við kostun, þó með þeim undantekningum að beita megi kostun „við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti“ og „við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá“.
Ríkisútvarpið ákvað að setja sér reglur um auglýsingar út frá lögunum og bætti inn í þær að stofnunin mætti beita kostun í þeim tilvikum sem lögin greina og auk þess í því sem Ríkisútvarpið kallar „afleidda dagskrá“. Með þessari viðbót, sem er án lagastoðar, hefur Ríkisútvarpið selt mun víðtækari kostun en heimild er fyrir. Fjölmiðlanefnd finnur að þessu og segir Ríkisútvarpið hafa brotið lög, en bætir því við að vegna fyrri samskipta við Fjölmiðlanefnd, þar sem nefndin stóð sig ekki sem eftirlitsaðili, þá sé fallið frá sektarákvörðun í þeim málum sem um ræðir.“