- Advertisement -

Látum veik börn bíða árum saman

Það er hægt að koma í veg fyrir það með því að sjá til þess að börn séu ekki á biðlista.

„1.193 börn um allt land bíða eftir greiningu eða meðferð við geðrænum eða sálrænum vanda. Fjölmennastur er biðlistinn á Þroska- og hegðunarstöð þar sem 584 börn bíða greiningar. 107 börn bíða eftir greiningu og meðferð á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, og níu börn eru á biðlista eftir innlögn á deildina. Við erum að láta börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur jafnvel árum saman,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi.

„Eins og þessum málum er háttað í dag þurfa börn, sem þurfa á bráðaþjónustu að halda, tilvísun frá heilsugæslunni og þar er biðin oft löng. Fólk þarf jafnvel að tala við símsvara sem gefur stundum villandi möguleika. Fólk er sent frá Pontíusi til Heródesar í tilgangsleysi í stað þess að fá hjálp strax. Geðraskanir eru ein helsta orsök örorku og því fer ekki á milli mála að hana ber að meðhöndla strax hjá börnum og unglingum. Ef það er ekki gert verður það dýrkeypt til framtíðar fyrir börnin og unglingana, fjölskylduna og samfélagið allt. Og hverjar eru afleiðingarnar fyrir viðkomandi börn? Skólaganga þeirra er í uppnámi og framtíð þeirra er í uppnámi, framtíð fjölskyldunnar er í uppnámi. Það er hægt að koma í veg fyrir það með því að sjá til þess að börn séu ekki á biðlista.“

Með því að útrýma ekki biðlistum barna og unglinga er ríkið að framleiða öryrkja á færibandi.

Guðmundur Ingi hélt áfram: „Það er nánast enginn stuðningur eða úrræði í boði fyrir þann hóp barna sem elst upp hjá foreldrum með geðrænan vanda og þá vantar einnig stuðning fyrir þann hóp barna sem er að alast upp hjá foreldrum með fíkni- og áfengisvanda. Álag á börn og fjölskyldur þeirra er oft og tíðum svo alvarlegt að skaðinn verður óbætanlegur, bæði andlega og líkamlega og fjárhagslega. Með því að útrýma ekki biðlistum barna og unglinga er ríkið að framleiða öryrkja á færibandi nú og í náinni framtíð. Þá er að koma í ljós að andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum hefur aukist sem gerir þörf á góðri og skjótri heilbrigðisþjónustu fyrir börn lífsnauðsynlega. Einelti er einnig orsakavaldur geðrænna veikinda hjá börnum og þá bæði hjá þolendum og gerendum. Þetta segir okkur að hver króna sem sett er í þennan málaflokk skilar sér ekki bara tífalt heldur hundraðfalt til baka fjárhagslega fyrir ríkið og samfélagið.“

Hér er hægt að lesa svarræðu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: