Látalæti í þingmönnum
- Þó þingmenn ofleiki í látalætunum núna, verður Benedikt að vanda sig. Það er með öllu óþarft að rugga bátnum að óþörfu, aftur og aftur.
Ég fæ mig ekki til að trúa að alþingismönnum, mörgum hverjum, sé eins misboðið og þeir vilja vera láta, vegna þess sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra sagði, í samtali í Bítinu á Bylgjunni. Hann sagði siðlaust hjá Alþingi að samþykkja samgönguáætlun án þess að búið væri að tryggja peninga til þess, heldur áfram að draga dilk á eftir sér.
Innihald orða Benedikts á nokkuð vel við. Það er samþykkt samgönguáætlunar án þess að peningar fengjust til að hægt yrði að fylgja henni eftir.
Benedikt virðist búa við það, að tala hraðar en hann hugsar. Hann hefur áður þurft að taka orð sín aftur. „Í ræðustól Alþingis vísaði ég til þingkvenna sem hagsýnna húsmæðra. Það var tilraun til þess að gefa hnyttið andsvar við fyrri ræðu, en hún heppnaðist afleitlega. Um leið og ég heyrði mig segja þetta hugsaði ég: „Þú ert nú ekki alltaf jafn orðheppinn Benedikt. Þetta voru kjánaleg ummæli og ég biðst afsökunar á þeim,“ skrifaði Benedikt á Facebook snemma í febrúar.
Þó þingmenn noti hvert tækifæri til að finna að orðavali Benedikts nú, er ég viss um að það er ekki vegna þess að þeim þykir að þinginu vegið. Alls ekki. Allt er þetta frekar tækifæri til að gera Benedikt lífið leitt.
Katrín Jakobsdóttir lét þetta mál til sín taka í gær. Hún sagðist hafa talið að það væri verkefni nýrrar ríkisstjórnar að fylgja eftir samþykktum Alþingis fremur en að fara með slíkum svigurmælum, einsog hún orðaði það, sem Alþingi getur ekki setið þegjandi og hljóðalaust undir. „Það má öllum vera ljóst að ef þessi ummæli hæstvirts ráðherra standa óbreytt gagnvart Alþingi er það grafalvarlegt.“ Ég held ekki.
Þó þingmenn ofleiki í látalætunum núna, verður Benedikt að vanda sig. Það er með öllu óþarft að rugga bátnum að óþörfu, aftur og aftur.
Svo er ágætt að þingmenn allir haldi áfram, eða jafnvel byrji á, að sinna brýnum verkefnum. Af nógu er að taka.
Sigurjón M. Egilsson.