Langvarandi einelti í Ráðhúsinu
Ljóst er að allir sem komið hafa að málinu með einhverjum hætti eru vanhæfir til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins.
„Stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins telja að sterkar vísbendingar séu um að í Ráðhúsinu ríki eineltismenning sem jafnvel hefur ríkt lengi. Eins og kunnugt er lét Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, bóka að hafa verið hrakyrtur og svívirtur af þáverandi formanni borgarráðs. Fjallað var um málið í fjölmiðlum 14. október 2016,“ segja þær Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúar í bókun í borgarráði.
Þær segja einnig: „Nú hefur dómur fallið þar sem felld er úr gildi skrifleg áminning sem skrifstofustjóri borgarinnar veitti þáverandi fjármálastjóra og skal borgin greiða alls um eina og hálfa milljón í skaðabætur og málskostnað. Það er sjaldgæft að sjá dómara fara svo hörðum orðum um athæfi en í dómnum segir orðrétt „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“ Teljum við slíkt undirstrika alvarleika málsins. Á fyrsta borgarstjórnarfundi 19. júní var margt í framkomu borgarfulltrúa sem fór yfir almenn kurteisismörk að mati stjórnarandstöðunnar.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks bókuðu: „Stjórnarandstaðan lítur það grafalvarlegum augum að slík framkoma og hegðun eins og lýst er í dómnum fái þrifist innan Ráðhúss Reykjavíkur. Ljóst er að allir sem komið hafa að málinu með einhverjum hætti eru vanhæfir til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins. Rétt er því að allar ákvarðanir um framhald málsins verða teknar á vettvangi borgarráðs þ. á m. framtíð gerandans í starfi sem einn æðsti stjórnandi í Ráðhúsi Reykjavíkur.“
Og þá bókuðu fulltrúar meirihlutans: „Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna líta svo á að siðareglur borgarfulltrúa haldi utan um það hvernig ætlast er til að borgarfulltrúar hegði sér í samstarfi sín á milli. Siðareglur verða í haust uppfærðar í samvinnu allra borgarfulltrúa. Fyrr á fundinum var ákveðið að skipa stýrihóp um endurskoðun gildandi stefnumótunar gegn einelti og áreitni á starfsstöðum Reykjavíkurborgar og gefst þar tækifæri til að fara yfir stefnu Reykjavíkurborgar í þeim málum.“