- Advertisement -

Langur listi af hunsuðum undirskriftasöfnunum

Mín skoðun er sú að kominn sé tími til að skipta út valdinu, hrekja auðvaldið og senditíkur þess frá völdum.

Gunnar Smári skrifar:

Í ljósi þess að undirskriftasöfnun um nýja stjórnarskrá er að klárast er fróðlegt að skoða tuttugu stærstu undirskriftasafnanirnar hingað til samkvæmt wikipediu (ég bætti við tveimur elstu) og hvaða áhrif þær höfðu. Til að fá samanburð reiknaði ég fjölda undirskrifta sem hlutfall af fólki á kosningaaldri á hverjum tíma og svo hvað það hlutfall merkir í dag í fjölda undirskrifta.

  1. Varið land, gegn brottför hersins (1974): 44,2% eða ígildi 124.845 undirskrifta í dag
    Herinn fór ekki fyrr en 2006 hvort sem þessi söfnun hafði áhrif eða ekki. En án efa styrkti hún stöðu hernámssinna og dró úr vægi herstöðvamálsins ´ stjórnmálaumræðunni.
  2. Gegn beitingu breska ríkisins á hryðjuverkalögum gegn Íslandi (2008): 35,4% eða ígildi 100.181 undirskrifta í dag
    Ísland og íslensk fyrirtæki voru tekin af listanum en ólíklega vegna þessarar undirskriftasöfnunar. Og reyndar er Ísland nú á gráum lista í dag vegna slælegra varna stjórnvalda gegn peningaþvætti í fjármálakerfinu.
  3. Krafa um að 11% af vergri þjóðarframleiðslu renni í heilbrigðismál (2016): 34,3% eða ígildi 96.944 undirskrifta í dag
    Hvorki ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar né ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sinntu þessari kröfu.
  4. Gegn flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri (2013): 28,8% eða ígildi 81.336 undirskrifta í dag
    Í gildi er samningur milli ríkis og borgar um að flugvöllurinn hverfi þegar skárri kostur finnst, svo ætla má að völlurinn fari.
  5. Gegn Icesave-samningi II (2010): 23,7% eða ígildi 66.936 undirskrifta í dag
    Alþingi hunsaði þessa undirskriftasöfnun en Ólafur Ragnar Grímsson forseti skaut málinu til þjóðarinnar sem felldi samninginn.
  6. Gegn Eyjabakkavirkjun (1999): 22,9% eða ígildi 64.800 undirskrifta í dag
    Ekki varð að Eyjabakkavirkjun en Kárahnjúkar voru virkjaðir í staðinn.
  7. Áskorun um áframhald ESB-viðræðna (2014): 21,8% eða ígildi 61.652 undirskrifta í dag
    Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sinnti þessu á engan hátt.
  8. Gegn kvótasetningu á makríl (2015): 21,5% eða ígildi 60.813 undirskrifta í dag
    Frumvarpinu var breytt en makríll er í kvóta í dag
  9. Gegn sölu HS-orku til Magma Energy (2011) 19,7% eða ígildi 55.838 undirskrifta í dag
    Þessi söfnun kom ekki í veg fyrir söluna né áframhaldandi einkavæðingu orkukerfisins.
  10. Áskorun um að Faxaflói verði griðland hvala (2018): 18,8% eða ígildi 53.190 undirskrifta í dag
    Þótt verndarsvæðið hafi verið stækkað má enn veiða hvali í Faxaflóa
  11. Gegn EES-samningum (1992): 18,8% eða ígildi 53.135 undirskrifta í dag
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sinnti þessu á engan hátt. Vigdís Finnbogadóttir forseti skrifaði undir eftir að hafa íhugað að gera það ekki.
  12. Gegn Icesave-samningi III (2011): 17,8% eða ígildi 50.368 undirskrifta í dag
    Sama og varðandi Icesave II: Alþingi hunsaði en Ólafur Ragnar skaut málinu til þjóðarinnar sem felldi samninginn.
  13. Gegn vegatollum (2011): 17,4% eða ígildi 49.329 undirskrifta í dag
    Ekkert varð að þessum fyrirætlunum í kjölfarið en nú hefur málið risið upp margeflt og stefnt er á umfangsmikla vegatolla á næstunni.
  14. Krafa um að hætt verði við áætlanir um virkjanir á íslenska hálendinu (2015): 17,0% eða ígildi 48.068 undirskrifta í dag
    Margar virkjanir á hálendinu er enn í nýtingarflokki og verða það áfram þótt hálendisþjóðgarður verði að veruleika, en innan hans verður leyft að virkja.
  15. Krafa um leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnám verðtryggingar (2012): 15,7% eða ígildi 44.520 undirskrifta í dag
    Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sinnti þessu á engan hátt.
  16. Gegn Fjölmiðlafrumvarpinu (2004): 15,0% eða ígildi 42.346 undirskrifta í dag
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók ekki mark á þessari söfnun en Ólafur Ragnar hafnaði lögunum undirskrift. Davíð dró lögin til baka frekar en að leyfa þjóðinni að fella þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  17. Gegn breytingum á veiðigjaldi (2013): 14,4% eða ígildi 40.742 undirskrifta í dag
    Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stóð við sitt gagnvart útgerðinni og tók ekki mark á þessari söfnun.
  18. Gegn Kanasjónvarpinu (1966): 13,9% eða ígildi 39.211 undirskrifta í dag
    Söfnunin var í tengslum við stofnun Ríkissjónvarpsins. Ári síðar var útsendingum Kanasjónvarpsins beint á haf út svo færri náðu að horfa.
  19. Gegn hvalveiðum (2013): 13,6% eða ígildi 38.544 undirskrifta í dag
    Þótt hvalveiðar hafi ekki verið stundaðar undanfarin ár er það ekki vegna banns stjórnvalda heldur af markaðsástæðum.
  20. Áskorun SÁÁ um að 10% af áfengisgjaldi renni til vímuvarna (2013): 12,8% eða ígildi 36.208 undirskrifta í dag
    Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók við undirskriftunum en gerði ekkert með þær.
  21. Krafa þess efnis að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér sem forsætisráðherra í kjölfar Panamaskjalanna (2016): 12,0% eða ígildi 33.869 undirskrifta í dag
    Sigmundur sagði af sér áður en undirskriftasöfnunin kláraðist. Söfnunin var aðeins ein birtingarmynd af andstyggð stórs hluta þjóðarinnar á framferði hans og annarra ráðherra, sem einnig voru í Panamaskjölunum. Vegna hins fræga viðtals beindist reiðin þó mest gegn Sigmundi.
  22. Gegn Keflavíkursamningnum (1946): 10,8% eða ígildi 30.562 undirskrifta í dag
    Ríkisstjórn Ólafs Thors sinnti þessu á engan hátt.

Þetta er sorglegur listi.

Þetta er sorglegur listi. Ef ekki væri fyrir framlag Ólafs Ragnars mætti segja að almenna reglan sé að stjórnmálastéttin gefur ekkert fyrir undirskriftasafnanir. Af þessum 22 málum tryggði Ólafur Ragnar þrjú mál voru drepin og hafði það örugglega áhrif á að eitt annað var dregið til baka (vegatollar 2011). En listinn yfir safnanir sem hafa verið hunsaðar er miklu lengri, meira að segja sú sem meira en ⅓ kosningabærs fólks skrifað undir. Sem ekki ætti að koma okkur á óvart. Stjórnmálastétt sem hunsar þjóðaratkvæðagreiðslur tekur undirskriftasafnanir í nefið.

Ég hef komið að tveimur af þessum undirskriftasöfnunum og það var ágæt reynsla. Hún jók ekki við trú mína á svona bænabréfum til valdsins. Mín skoðun er sú að kominn sé tími til að skipta út valdinu, hrekja auðvaldið og senditíkur þess frá völdum. Meðan þessi fyrirbrigði eru við völd verður vilji almennings hunsaður, sama í hvaða formi hann birtist.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: