Stjórnsýsla „Við erum einfaldlega orðin langþreytt á hinu svokallaða samráði ríkisins og köllum eftir raunverulegu samtali. Annars geta menn allt eins sleppt þessu og tekið áfram sínar einhliða ákvarðanir,“ segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, í viðtali við bb.is.
Hún segir algjörlega gengið framhjá viðhorfum og skoðunum heimamenna þegar ákvörðun um sameiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði, var tekin. Stjórn Fjórðungssambandsins sendi frá sér harðorða ályktun í síðustu viku sen send var Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra og þingmönnum NV-kjördæmis. „Því miður hafa viðbrögð verið lítil sem engin, en eini þingmaðurinn sem hefur haft samband er Elsa Lára Arnardóttir sem stendur með okkur í málinu,“ segir Albertína.
Hún segir að engan skyldi undra að ályktunin sé harðorð. „Því miður virðist allt samráð vera aðeins í orði. Alltof oft er búið að taka ákvarðanir áður en haft er samráð við heimamenn og það er því varla hægt að nota það orð um þetta ferli, heldur eru send bréf eða haldnir fundir alltof seint í ferlinu. Það á ekki eingöngu við í þessu máli. Alltof oft virðist í raun ekki vera ætlun ríkisins að hlusta á hið svokallaða samráð hvort eð er,“ segir Albertína. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, hefur gagnrýnt vinnubrögð heilbrigðisráðherra og sagði framkomu ráðuneytisins óboðlega og ruddaskap gagnavart íbúum á suðurfjörðunum.
„Samráð ráðherra í þessu máli fólst í fundum með forsvarsmönnum Vesturbyggðar þar sem ráðherra var augljóslega búinn að taka ákvörðun í málinu og hafnaði strax öllum hugmyndum heimamanna. Ekki var rætt við Fjórðungssambandið og að því best ég veit ekki Ísafjarðarbæ heldur. Heilbrigðisráðherra virðist hafa einhverjar forsendur í málinu sem hann hefur ekki viljað deila með heimamönnum og virðist hafa farið inn í þetta samráð algerlega lokaður á aðrar forsendur,“ segir Albertína.
Hún segir að skilgreina verði hvað felist í því samráði sem heilbrigðisráðherra á að hafa við sveitarfélög við sameiningar heilbrigðisstofnana eins og tilgreint er í lögum. „Í skýringu með frumvarpi til laga um heilbrigðisstofnanir segir að ráðherra sé bundin samráðsskyldu við sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga. Hvernig sú samráðsskylda er praktiseruð er einhliða ákvörðun ráðuneytisins.,“ segir Albertína.