„Því fer fjarri að barnafjölskyldur á Íslandi fái jafn mikinn og góðan stuðning og tíðkast í hinum norrænu ríkjunum. Í samtölum mínum við ungar konur með meðallaun segja þær undantekningarlaust að þær fái engar barnabætur, barnabætur séu ekki fyrir þeirra börn. Þó velti þær hverri krónu og aldrei sé afgangur um mánaðamót, sama hve margir yfirvinnutímar séu unnir,“ sagði Oddný Harðardóttir á þingi í gær.
„Um leið og foreldrarnir vinni meira til að geta veitt börnum sínum þokkalegt húsnæði, fæði, klæði og tómstundir, fái börnin lítinn tíma með foreldrum sínum og streitan við að skutla og sækja á milli vinnutarna taki sinn toll. Hér á landi fá aðeins þær fjölskyldur óskertar barnabætur sem eru með tekjur undir lágmarkstekjutryggingu og við meðallaun koma engar bætur og hafa þær lækkað verulega að því marki vegna grimmra tekjuskerðinga sem eru afleiðing af stefnu núverandi ríkisstjórnar. Ef Ísland á að vera barnvænt samfélag, líkt og við jafnaðarmenn ætlum okkur eftir næstu kosningar, verður að styðja við fleiri barnafjölskyldur. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru barnabætur ekki tekjutengdar, en í Danmörku byrjar skerðingin með háar tekjur. Tekjutengingin er þar í gegnum tekjuskattskerfið. Hugsunin er sú að með barnabótum séu kjör þeirra sem eru með börn á framfæri jöfnuð við hina sem ekki eru með börn á framfæri, en tekjuhæstu einstaklingarnir greiða hins vegar hærri tekjuskatt þar en hinir,“ sagði Oddný og endaði svona:
„Sumir segja að það kosti of marga milljarða að gera jafn vel og hin norrænu ríkin, en við bendum á að það kosti of marga milljarða að lækka skatta á fjármagnseigendur, líkt og ríkisstjórnin hefur gert á þessu kjörtímabili, að ekki sé talað um lækkun veiðigjalda. Okkar forgangsröðun er önnur.“