Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar í Mogga dagsins. Hún skrifar meðal annars um stóru málin tvö, Lindarhvol og söluna í Íslandsbanka.
„Tvö slík mál hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið. Annars vegar illa heppnuð sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka þar sem stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir skipan rannsóknarnefndar svo við komumst til botns í því hvað fór úrskeiðis. Hitt málið er auðvitað langavitleysan um Lindarhvol. Þar hefur stjórnvöldum á næstum því aðdáunarverðan hátt tekist að láta umræðuna snúast um form frekar en efni.
Þessi tvö mál eiga það sameiginlegt að um er að ræða gríðarlega fjárhagslega hagsmuni almennings. Það er því erfitt að skilja hvernig hægt er að halda því fram að málsmeðferðin í heild sinni komi þessum sama almenningi ekki við. Eða að um tiltekna hluta hennar, helst þá sem varða aðkomu stjórnvalda, þurfi að ríkja sérstök leynd.“
-sme