- Advertisement -

Landsvirkjun skuldar skýringar

Þetta er ekki það eina vegna þess að á þessum 5 árum hefur eigið fé Landsvirkjunar aukist um 71 milljarð miðað við gengi dollarans í dag og nemur eigið fé Landsvirkjunar uppundir 330 milljörðum.

Vihjálmur Birgisson skrifar:

Ég er dálítið að klóra mér í höfðinu yfir pistli sem Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar skrifaði á dögunum.

En í þeim pistli var hún að fara yfir að öllum stórnotendum sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar hafi verið boðið lækkun raforkuverðs niður í kostnaðarverð Landsvirkjunar, sem er á bilinu $28/MWst til $35/MWst eftir því til hvaða virkjana er horft.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það sem ég skil alls ekki er að Stefanía segir eins og fram hefur komið að kostnaðarverð Landsvirkjunar sé á bilinu 28 til 35 dollarar á MW stundina en það þýðir að ef raforkuverð er undir 28 dollurum þá ætti að vera bullandi tap á rekstri Landsvirkjunar.

En skoðum hvaða raforkuverð án flutnings stórnotendur hafa verið að greiða frá árinu 2015 til 2019, en uppundir 85% af öllum viðskiptum við Landsvirkjun eru við stórnotendur:

  • Árið 2015 nam meðalverðið 19,2 dollurum á MW
  • Árið 2016 nam meðalverðið 18,6 dollurum á MW
  • Árið 2017 nam meðalverðið 21,4 dollurum á MW
  • Árið 2018 nam meðalverðið 23,3 dollurum á MW
  • Árið 2018 nam meðalverðið 23,3 dollurum á MW

Á þessu sést að meðalverð til stórnotenda á raforkumarkaði er langt undir kostnaðarverði sem Landsvirkjun hefur sagt að þurfi til að standa undir þeim virkjunum sem LV á og rekur. Ef þessi kostnaðarverð hjá LV væru réttar, ætti Landsvirkjun að vera í umtalsverðum rekstrarvanda, enda getur ekkert fyrirtæki selt vörur ár eftir ár undir kostnaðarverði.

Samtals nemur hagnaðurinn upp undir 50 milljörðum á þessum 5 árum.

En þá komum við að því af hverju ég er að klóra mér í höfðinu yfir þessum pistli frá framkvæmdastjóra Landsvirkjunar. Jú, á þessu tímabili þar sem Landsvirkjun selur rafmagnið að eigin sögn langt undir kostnaðarverði er fyrirtækið rekið með bullandi hagnaði. En samtals nemur hagnaðurinn upp undir 50 milljörðum á þessum 5 árum og ekki bara það heldur hafa nettó skuldir Landsvirkjunar lækkað um 100 milljarða á sama árafjölda!

Þetta er ekki það eina vegna þess að á þessum 5 árum hefur eigið fé Landsvirkjunar aukist um 71 milljarð miðað við gengi dollarans í dag og nemur eigið fé Landsvirkjunar uppundir 330 milljörðum.

Þessi snilldar aðferðafræði Landsvirkjunar að geta selt sínar vörur langt undir kostnaðarverði en samt skilað hagnaði uppá 50 milljarða, greitt niður skuldir fyrir 100 milljarða og aukið eigið fé um 71 milljarð er hagfræði sem klárlega eigi að kenna í öllum virtustu háskólum um hina víðu veröld.

Ég er sannfærður um að flest fyrirtæki hér á landi myndu vilja fá námskeið hjá Landsvirkjun til að læra þessa snilldarhagfræði um það hvernig er hægt að selja vörur langt undir kostnaðarverði, en skila samt gríðarlegum hagnaði, geta lækkað skuldir og auka eigið fé allt á sama tíma.

Ég tel að nú verði Landsvirkjun að útskýra fyrir þjóðinni svo ekki sé talað um fyrir öðrum fyrirtækjum sem eiga í vandræðum, hvernig það er hægt að ná þessari glæsileg afkomu á sama tíma og raforkuverð dugir ekki fyrir lágmarks kostnaðarverði til að reka virkjanir í eigu Landsvirkjunar.

Eða er kannski málið að Landsvirkjun sé að beita blekkingum sem lýtur að því að segja að kostnaðarverð sé á bilinu 28 til 35 dollarar þegar það er í raun og veru miklu lægra, allt til þess að halda orkuverði uppi. Getur verið að Landsvirkjun sé að kostnaðarreikna virkjanir sem löngu er búið að afskrifa eins og hvað myndi kosta að byggja þær í dag.

Alla vega þarf allt samfélagið að fá upplýsingar um þessa snilldar hagfræði sem ástunduð er hjá Landsvirkjun, að hægt sé að selja vörur undir kostnaðarverði en stórgræða samt!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: