- Advertisement -

Landsvirkjun skilar arðinum til þjóðarinnar

Sú arðgreiðsla var rúmlega tvöfalt hærri en á síðasta ári og eflaust kærkomin á Covid-tímum.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, skrifar:

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, ritar hér á Miðjunni í dag að hann klóri sér í höfðinu eftir lestur á nýlegum pistli framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar um kostnaðarverð á raforku til stórnotenda. Það eitt og sér sætir raunar furðu, því Vilhjálmur hefur verið afar iðinn á liðnum árum að býsnast yfir raforkuverði til stórnotenda og Landsvirkjun nánast jafn oft leitast við að skýra þau mál ítarlega fyrir honum. Skal nú enn bætt í.

Landsvirkjun, sem er í eigu íslensku þjóðarinnar, hefur unnið að því að bæta arðsemi fyrirtækisins. Vinnsla orku úr endurnýjanlegum auðlindum landsins á að skila sér til þjóðarinnar. Sem dæmi um þetta þá er tekið fram í lagafrumvarpi um svokallaðan Þjóðarsjóð, að hann skuli vera varasjóður ef Ísland verði fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum. Sá sjóður, fullfjármagnaður, hefði komið sér vel nú á tímum Covid-19, rétt eins og olíusjóður Norðmanna gerði fyrir frændþjóð okkar. Í frumvarpinu eru ákvæði til bráðabirgða um að fjármagni skuli ráðstafað í byrjun til uppbyggingar hjúkrunarrýma og eflingar nýsköpunar atvinnuveganna. Hér eru þjóðþrifamál sem gagnast Íslandi til framtíðar. Stærsti hluti framlags í sjóðinn kemur í gegnum arðgreiðslur Landsvirkjunar.

Ef raforkuverðið nær ekki þeim upphæðum þá þýðir það ekki að Landsvirkjun sé rekin með tapi.

Kostnaðarverð Landsvirkjunar á raforku er á bilinu 28-35 dollarar á MWst, eins og Vilhjálmur Birgisson ritar. Þannig er kostnaðarverðið 35 dollarar ef aðeins er litið til síðustu þriggja virkjana, 32 dollarar ef litið er til þessarar aldar, en 28 dollarar ef litið er til allra orkustöðva Landsvirkjunar. Ef raforkuverðið nær ekki þeim upphæðum þá þýðir það ekki að Landsvirkjun sé rekin með tapi. Það þýðir hins vegar að arður af rekstrinum nær ekki því sem til er ætlast. Dæmið er einfalt:  Ef kostnaðarverði er náð, þá nær hagnaður fyrirtækisins að skila þeim arði til eiganda síns sem hann leitast eftir. Annars ber eigandi skarðan hlut af sinni fjárfestingu. Mælir einhver því bót að íslenska þjóðin tapi á fjárfestingu sinni í raforkuvinnslu Landsvirkjunar?

Íslenska ríkið hefur sett Landsvirkjun kröfu um 7,5% arðsemi. Eins og sakir standa nær Landsvirkjun ekki að skila þeirri arðsemi til þjóðarinnar, en arðsemi eiginfjár var sem dæmi um 5,2% á árinu 2019. Þessi ávinningur, arðsemi, er það sem gagnast á hjúkrunarheimilum, til að efla nýsköpun og skapa varasjóð við áföllum. Landsvirkjun greiðir út arð sem nemur 10 milljörðum króna til eigandans í ár sem er rétt um 3% af eigið fé fyrirtækisins.  –

Virkjanir

Landsvirkjun hefur í gegnum árin unnið með þjóðinni og fyrir þjóðina til að skapa tækifæri til vaxtar og ber áralöng saga virkjanaframkvæmda þess vitni. Í dag starfrækir fyrirtækið 15 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur, en stór hluti þessarar orkuvinnslugetu hefur bæst við á síðustu 10-15 árum.

Vilhjálmur Birgisson veltir því fyrir sér hvort ekki sé búið að afskrifa elstu eignirnar og þar af leiðandi þurfi lítinn sem engan ábata af þeim. Hér þarf þó að hafa tvennt í huga: Ef raforka er gefins því Ljósafossstöð var byggð árið 1937 og lítið „virði“ því í henni, þá má allt eins gefa aflstöðina til raforkukaupanda. Hún skilar þá ekki arði til eiganda sem gagnast hjúkrunarheimilum, nýsköpun og að skapa varasjóð eins og áður hefur verið nefnt. En þar fyrir utan væri lögbrot að gera slíkt, því þá væri Landsvirkjun að beita stöðu sinni til að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni í orkuvinnslu og sölu með undirverðlagningu.

Efnahagur Landsvirkjunar

Viðskiptavinir félagsins eiga margir við tímabundna erfiðleika að glíma.

Staða Landsvirkjunar í dag hefur batnað en fyrirtækið var skuldsett eftir mikla og hraða uppbyggingu til að mæta þörf fyrir raforku. Eigandinn, íslenska þjóðin, hefur sýnt þeirri uppbyggingu þolinmæði og lögð var áhersla á að minnka skuldir til að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn. Það kemur sér vel nú á tímum kórónafaraldursins. Viðskiptavinir félagsins eiga margir við tímabundna erfiðleika að glíma, en Landsvirkjun er í stakk búin til að styðja við þá, m.a. með tímabundinni lækkun orkuverðs, sem nemur alls 1,5 milljörðum króna. Og ekki síður að styðja við uppbyggingu landsins með því að veita um 12 milljörðum króna til nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á næstu þremur árum. Þá má einnig nefna áherslu á stafræna þróun og að veita nemum og ungmennum sumarvinnu.

Eigið fé Landsvirkjunar hefur styrkst og er nú um helmingur af efnahagsreikningi fyrirtækisins. Kemur það bæði til vegna þess að eigandinn hefur tekið lítinn arð út úr fyrirtækinu og sá peningur farið í að lækka skuldir.

Hvað er sanngjarnt raforkuverð ?

Það eru og munu vera mismunandi skoðanir um hvert raforkuverðið eigi að vera. Landsvirkjun selur ekki raforku beint til heimila eða smærri fyrirtækja, heldur til stærri raforkukaupenda og inn á heildsölumarkað. Raforkuverð þarf að vera og er samkeppnisfært til langs tíma óháð skammtímasveiflum. Þar er ekki um einhliða valdboð að ræða, eins og ætla mætti af skrifum Vilhjálms Birgissonar, heldur er orkuverðið ákvarðað í samningum. Landsvirkjun gætir að hagsmunum eigenda sinna, íslensku þjóðarinnar og viðskiptavinir hennar hafa eigin rekstrargrundvöll í huga. Samningar takast, í þessu sem öðru, þegar báðir aðilar eru sáttir við sinn hlut.  Viðsemjendur Landsvirkjunar hafa sjálfir í huga arðgreiðslukröfur eigenda sinna, eins og eðlilegt er. Í tilviki Landsvirkjunar eru okkar hagsmunir í raforkuverðinu fólgnir í því að skila eigandanum, íslensku þjóðinni, þeirri arðsemi sem til er ætlast. Arður Landsvirkjunar fer í að byggja upp hjúkrunarheimili, styðja við nýsköpun atvinnuveganna og koma upp varasjóði fyrir Ísland til að mæta áföllum eins og við sjáum nú við Covid-19. Arður Landsvirkjunar rennur til þjóðarinnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: