Marinó G. Njálsson:
Tekjur Landsvirkjunar af stóriðjusamningunum voru svo lélegar, að fyrirtækið náði varla að greiða niður framkvæmdalánin sem tekin voru þegar virkjanir voru reistar og ansi oft var tap á rekstri fyrirtækisins.
Landsvirkjun á orðið skuldlaust allar virkjanir reistar á fyrstu tæplega 40 árum starfsemi sinnar. Búið er að greiða upp öll lán vegna Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsvirkjunar og þeirra sem eru eldri.
Óhætt er að segja, að þetta sé stór áfangi í raforkusögu landsins og sögu Landsvirkjunar. Spurningin er hins vegar hver næstu skref verða. Ég myndi leggja til lækkun raforkuverðs til almenningsveitna og sérstaklega til þeirra sem nota rafmagn til húshitunar. En meira um það neðst í færslunni.
Ég hef oft tjáð mig um málefni Landsvirkjunar, enda var lokaverkefni mitt við Stanford háskóla fyrir 35 árum um raforkukerfi landsins. Þó ýmislegt hafi breyst síðan, þá er bara ein af núverandi vatnsaflsvirkjunum Landsvirkjunar sem ekki var hluti af mínu verkefni, þ.e. Búðarhálsvirkjun. Á eftirspurnarhliðinni hefur vissulega eitthvað breyst, en stóriðja á Reyðarfirði var tekin með.
Í maí 2015 skrifaði ég bloggfærslu um málefni Landsvirkjunar, þar sem umræðuefnið var hvort arður af stóriðju væri lítill eða mikill. Greinin var í tilefni skrifa Indriða H. Þorlákssonar annars vegar og Steingríms J. Sigfússonar hins vegar um sama efni, þar sem þá greindi eitthvað á.
Á þeim tíma var arðurinn óumdeilanlega ekki eins mikill og Landsvirkjun og landsmenn hefðu viljað, en mín niðurstaða af greiningu upplýsinga í ársreikningum Landsvirkjunar var: „Stóriðjusamningar geta gefið vel af sér, seinna.“ Reiknaði ég mér til að þetta seinna yrði á næstu 5-10 árum þar á eftir, þegar Landsvirkjun væri orðin nær skuldlaus eins og lesa mátti út úr ársreikningunum að væri í kortunum og ályktaði:
„Nánast skuldlaus Landsvirkjun myndi breyta miklu fyrir samningana við stóriðjurnar. Samningar sem gefa lítið í aðra hönd núna, gætu orðið að gullnámu og skilað fyrirtækinu hagnaði upp á 100 ma.kr. á ári, ef ekki meira.“
Ég var þó með fyrirvara:
„Til þess að slíkur hagnaður verði, þá mega menn ekki drekkja sér í nýjum fjárfestingum sem éta upp ávinninginn af skuldlausum og fullafskrifuðum virkjunum. Eigi Landsvirkjun að verða ein af gullgæsum þjóðarbúsins, þá verðum við að leyfa fyrirtækinu að verða sú gullgæs. Í mínum huga er út í hött, að skuldsetja fyrirtækið aftur upp í rjáfur bara vegna þess að einhver fallvötn hafa ekki verið virkjuð.“
Vegna breyttra stóriðjusamninga og mikillar hækkunar álverðs, þá er komið að þessu „seinna“. Landsvirkjun er loksins að hagnast vel og getur loksins greitt alvöru arð til eiganda síns 58 árum frá stofnun fyrirtækisins. Arðgreiðslurnar sem talað var um að ættu að mynda þjóðarsjóðinn, eru loksins að berast, en spurningin er hvort fjármálaráðherra sé nokkuð búinn að gleyma þeim draumum sínum. Reikna þó með að nú fari á fullt umræða um að einkavæða Landsvirkjun, enda er að mati sumra alveg nauðsynlegt að einkavæða hagnaðinn.
Forstjóri Landsvirkjunar skýtur á gagnrýnendur í viðtali og segir að nú geti enginn lengur sagt, að almenningur greiði með rafmagni til stóriðju. Það er rétt, en fram til ársins 2010 gerði almenningur það. Tekjur Landsvirkjunar af stóriðjusamningunum voru svo lélegar, að fyrirtækið náði varla að greiða niður framkvæmdalánin sem tekin voru þegar virkjanir voru reistar og ansi oft var tap á rekstri fyrirtækisins.
Að tekist hafi að snúa þessu svona skarpt við má að hluta rekja vil heimsfaraldursins, þegar verð á áli rauk upp og þar með greiðslur álfyrirtækjanna fyrir rafmagn. Hefðu álfyrirtækin haldið í fastverðs samningana, þá væru það þau sem væru að græða á rafmagnsverðinu, en ekki Landsvirkjun. Viðsnúningurinn hjá Landsvirkjun er því fyrst og fremst skammsýni og áhættufælni álfyrirtækjanna að þakka, þó hinir samningarnir hefðu endað í sama viðsnúningi, bara á lengri tíma.
Framundan eru framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar. Þær munu auka skuldsetningu á ný, en á móti eru eldri virkjanir góðar mjólkurkýr. Það sem þarf hins vegar að tryggja, er að raforkuframleiðsla til almenningsveitna sé skilin frá raforkuframleiðslu inn á alþjóðlegan samkeppnismarkað stórnotenda. Rafmagn til almennings á ekki að sveiflast vegna eftirspurnarsprengju frá þessum samkeppnismarkaði. Það gengur ekki, að almenningur, sem á ekki val um aðra uppsprettu raforku, verði settur á kaldan klakann vegna þess að rafmyntarfyrirtæki eru frek til orkunnar eða er það framleiðsla á vetni eða ný stóriðja.
Ég legg til, að ein af þessum sæmilega stóru, fullafskrifuðu virkjunum verði færð í dótturfélag Landsvirkjunar. Hennar megin hlutverk verði að framleiða raforku til almenningsveitna, en hún megi selja umframorku inn á „alþjóðlega samkeppnisnetið“. Virkjunin sem verði fyrir valinu, sé höfð nógu stór til að geta annað eftirspurn almenningsveitna a.m.k. næstu áratugina. Kannski rúmast þetta ekki innan regluverks EES samningsins, en þá er bara að fá því breytt eða segja sig frá þeim hluta samningsins sem hindrar þetta. Ég held að orkukreppan sem enn tröllríður öllu innan ESB, muni hjálpa okkur að fá þetta í gegn.
Hvað sem öllu líður, er gjörsamlega ólíðandi að almenningur í landi sem framleiðir ódýra, vistvæna raforku í stórum stíl, fái ekki öruggan aðgang að henni vegna þess að svikamyllur í sýndarveruleika hafi forgang.