Mogginn ítrekar vilja Haraldar Benediktssonar, varaformanns fjárlaganefndar og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að Landspítalinn verði að sjá um sig sjálfur og fái ekki meiri peninga til að mæta auknum kostnaði vegna Covid; „nema að hluta til.“
Mogginn rifjar upp þegar Haraldur sagði: Spítalann hafa gríðarlega möguleika til forgangsröðunar fjármuna og ráðuneytið hefur verið að reyna að herða að útgjaldavexti síðustu ára.
Síðan er vikið að Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og möguleika fjárlaganefndar til að dempa vilja Svandísar og að auka þurfi einkarekstur, en ekki hvað, þar sem Mogginn og flokkurinn fer.
„Það er góðra gjalda verk að skoða þessi mál og jákvætt að þingmenn vilji skoða aukinn einkarekstur til að hagræða í heilbrigðiskerfinu. Vonandi verður þessu fylgt eftir innan fjárlaganefndar þingsins og í þeirri lagasetningu sem nauðsynleg kann að vera til að tryggja að hægt sé að auka hagræðið í heilbrigðiskerfinu. En þó að fjárlaganefnd geti haft sitt að segja í þessum efnum er hætt við að lítið færist í rétta átt breytist viðhorf ekki í heilbrigðisráðuneytinu. Og til að svo verði þurfa þingmenn sem telja að leyfa eigi kröftum einkaframtaksins að njóta sín í auknum mæli í heilbrigðismálum að vera mun afdráttarlausari en þeir hafa verið á undanförnum árum.“