Heilbrigðismál „Fram kom við framlagningu fjárlagafrumvarpsins, sem nú er í uppnámi, að 13 milljarðar myndu renna aukalega í heilbrigðisþjónustuna. Mátti skilja á mörgum að þarna væri um að ræða innspýtingu í kerfið. Svo er hins vegar ekki nema að hluta. Þarna er að miklum hluta um að ræða fé til að mæta verðlagsþróun og launahækkunum en einnig fé til annarra hluta kerfisins. Það sem rennur til Landspítala er hins vegar minna en ekkert þegar öll kurl eru til grafar komin, sem er alvarlegt,“ þetta skrifar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á vefsíðu sjúkrahússins.
Hann segir einnig: „Við höfum áður farið inn í óvissuvetur með ókláruð fjárlög og óljósa stefnu stjórnmálanna í heilbrigðismálum. Óstöðugleiki af þessu tagi gerir ríkari kröfur til mikilvægra stofnana eins og Landspítala að sinna sínum skilgreindu verkefnum af ábyrgð og festu. Það er okkar hlutverk að sinna sjúklingum og fjölskyldum þeirra og því hlutverki sinnum við hvernig sem pólitískir vindar blása. Engu að síður er ljóst að næstu vikur og mánuðir munu verða afdrifaríkur tími fyrir spítalann og raunar heilbrigðiskerfið allt. Búast má við því að í kosningabaráttunni sem framundan er verði heilbrigðismálin enn ofarlega á baugi. Verkefni okkar á spítalanum er að gera almenningi og fulltrúum þeirra, stjórnmálamönnum, grein fyrir stöðu heilbrigðismála eins og þau snúa að Landspítala.“