„Stjórnendur Landspítalans eru hættir að tala undir rós; spítalinn er á leið í þrot ef ekki verður brugðist við. Þeir sérfræðingar sem þekkja til á sambærilegum heilbrigðisstofnunum í löndunum í kringum okkur fullyrða að þar myndu stjórnvöld hiklaust stíga inn, væri ástandið jafnslæmt og það er t.d. á bráðaþjónustu Landspítalans,“ segir í nýrri Moggagrein Hönnu Katrínar Friðriksson þingflokksformanns Viðreisnar.
„Hvorki sjúklingum né starfsfólki væri boðið upp á slíkt ástand. Hér er ekki í önnur hús að venda með marga þá þjónustu sem Landspítalinn býður. Sú staðreynd ýtir auðvitað undir skyldu stjórnvalda til að bregðast við. En það virðist ekki duga til,“ skrifar hún.
„Þrátt fyrir að umsvif hins opinbera hafi aukist sem aldrei fyrr skilar það sér ekki í umbótum á vanda Landspítalans. Ekki í rekstrarframlögum, ekki í framlögum til lækningatækja og ekki til lyfjakaupa. Ekki í umbætur fyrir sjúklinga né starfsfólk. Þess í stað fara tæplega 100 milljarðar króna í vaxtagjöld á næsta ári, þar af um helmingur vegna þeirra ömurlegu vaxtakjara sem ríkissjóður þarf að sætta sig við vegna íslensku krónunnar. Í heild kosta viðbótarvextir vegna krónunnar okkur ríflega 200 milljarða á ári, þ.e. ríkissjóð, fyrirtæki (þau sem ekki fá að flýja krónuna) og heimili (sem alls ekki fá að flýja krónuna).“
„Hvað ætlum við sem samfélag að halda áfram lengi að láta eins og það sé náttúrulögmál að fleiri tugir/hundruð milljarða tapist úr ríkiskassanum á hverju ári vegna krónunnar? Fjármunir sem ekki geta leitað í þarfari verkefni eins og heilbrigðisþjónustu? Upptaka evru kallar vissulega á pólitískt þrek en er það ekki einmitt hlutverk stjórnmálafólks að sýna slíkt þrek? Frekar en varpa vandanum til dæmis yfir á heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga?“