- Advertisement -

Landspítalinn á grálúðu

Sigurjón Magnús Egilsson:

Ég hugsaði með mér, hvenær klárum við þetta eiginlega. Tíu karlar í netabætingu og í aðgerð. Okkur tókst að gera trollin klár og því var hægt að toga á ný. Lagó!

Þegar ég var á Sólbaki EA 5 með hinum fína skipstjóra Stefáni heitnum Aspar fórum við á grálúðu. Sem ég hafði ekki reynt áður. Ég var á bátsmannsvaktinni með dugnaðarforkinum Steina Páls. Okkar vakt lét trollið fara. Það var trúlega um miðja vaktina.

Eftir að vaktinni lauk þreif ég mig og mataðist og fór svo í koju. Ég hafði ekki sofið lengi þegar öll okkar vaktin var vakin. Við vorum kallaðir á aukavakt. Þegar ég kom aftur á millidekk til að klæðast gallanum sá ég nokkuð sem ég hafði ekki áður séð.

Það var ekki bara móttakan sem var full af grálúðu. Grálúða var um allt millidekkið. Hún gefur frá sér einskonar lýsi sem gerði allt flughált. Sem er vont þegar er bræluskítur. Sem var svo sannarlega þennan dag.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Grálúða.

Mér var sagt að fara upp á dekk. Trollið var illa rifið og mér var sagt að fara að bæta. Þegar ég kom á dekkið sá ég að utan við rennuna, það er út við lunningarnar, var allt af fullt af grálúðu. Tugir tonna alls.

Ég hugsaði með mér, hvenær klárum við þetta eiginlega. Tíu karlar í netabætingu og í aðgerð. Okkur tókst að gera trollin klár og því var hægt að toga á ný. Lagó!

Næst var það aðgerðin. Þorskur er fínn til aðgerðar. Hausinn á honum er nánast með handföng. En grálúðan ekki. Að auki var hún hál og því þreyttumst við fljótt í fingrunum. Hvað um það. Við fylltum Sólbakinn á fáum dögum og sigldum heim. Þar áttum við nítján tíma frí.

Mættum því óþreyttari til skips. Út aftur.

Þannig er það ekki á Landspítalanum. Fólkið þar vinnur og vinnur og sér aldrei fyrir endann á verkefnunum. Þeim fækkar stöðugt sem starfa við aðhlynningu og hjúkrun. Verkefnin vaxa. Um allan spítalann neyðist fólkið til að fresta nauðsynlegum aðgerðum. Allt starfsfólkið hefur staðið í puði í tvö ár. Og ekki sér fyrir endann á einu né neinu.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Skjáskot: RÚV

Einstaka sjómenn hafa þann leiða sið að þykjast vita betur en skipstjórinn. Tuða fram og aftur um allt og ekkert. Þannig er Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Þegar mestu skiptir að vera samtaka er ráðherra, og jafnvel ráðherrar, sem nota hvert tækifæri til að reyna að grafa undan sér vitrara fólki. Það er leiðinda ósiður.

Starfsfólk Landspítalans stendur enn erfiðar vaktir. Og aukavaktir. Með öllu er óvíst hvenær þeim lýkur. Við sem þurfum ekki að klæðast búningunum, getum aldrei gert eins vel og við viljum, verðum að gera allt sem við getum til að draga úr álaginu á Landspítalanum sem og öðrum heilbrigðisstofnunum. Ekki síst ráðherrar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: